Erlent

Átök hefjast á ný í Nagorno-Karabakh

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólk skoðar hergögn sem her Aserbaídsjan tók af Armenum í átökunum árið 2020.
Fólk skoðar hergögn sem her Aserbaídsjan tók af Armenum í átökunum árið 2020. EPA/MAXIM SHIPENKOV

Ráðamenn í Aserbaídsjan tilkynntu nú fyrir skömmu að her ríkisins væri að reyna að uppræta hryðjuverkamenn í héraðinu Nagorno-Karabakh. Myndbönd eru þegar byrjuð að berast af árásum hersins í héraðinu.

Hernaðaraðgerðinni hefur verið lýst af yfirvöldum í Aserbaídsjan sem and-hryðjuverkaaðgerð en Aserar segja tilefnið vera að fjórir lögregluþjónar og tveir vegagerðarmenn hafi dáið í morgun eftir að þeir óku á jarðsprengju. Þá sprengju eiga armenskir öfgamenn að hafa lagt.

Aserski herinn segir Armena einnig hafa gert stórskotaliðsárásir á her Aserbaídsjan.

Aserar og Armenar hafa deilt um Nagorno-Karabakh um árabil og kom þar til mikilla átaka árið 2020. Aserar unnu þau átök á skömmum tíma. Héraðið er hluti af Aserbaídsjan en hefur verið stýrt af Armenum sem eru í miklum meirihluta íbúa þar, frá 1994 þegar sex ára stríði ríkjanna lauk.

Hermenn Aserbaídsjan hafa verið sakaðir um fjölmörg ódæði vegna átakanna 2020 en þeir birtu meðal annars myndbönd af sér taka armenska stríðsfanga af lífi.

Sjá einnig: Aserskir hermenn ákærðir fyrir stríðsglæpi

Aftur kom til átaka í fyrra en rússneskir friðargæsluliðar eru á svæðinu. Aserar segjast hafa látið þá vita af hernaðaraðgerðinni og heita því að gera ekki árás á borgaraleg skotmörk.

Aserar hafa haldið því fram að Armenar hafi verið að smygla vopnum inn í Nagorno-Karabakh og hafa setið um héraðið um nokkra vikna skeið. Fregnir hafa borist af miklum skorti á nauðsynjum eins og matvælum og lyfjum frá héraðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×