Íslenski boltinn

Sif Atla­dóttir leggur skóna á hilluna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sif Atladóttir hefur spilað sinn síðasta leik.
Sif Atladóttir hefur spilað sinn síðasta leik. Vísir/Hulda Margrét

Landsliðskonan fyrrverandi Sif Atladóttir hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir farsælan feril. Hún hefur undanfarin ár spilað með Selfossi í Bestu deild kvenna en liðið er fallið niður í Lengjudeildina.

Þetta staðfesti Sif í viðtali við Fótbolti.net eftir tap síns liðs gegn Keflavík. Þar staðfesti hún að skórnir væru á leiðinni upp í hilluna góðu.

„Ég get staðfest það, of gamall líkami og mörg ár á háu leveli og tvö börn. Ég er nálægt því að vera risaeðla í dag, 38 ára gömul. Minn tími er kominn inn á vellinum. Þá þarf maður að finna sér eitthvað annað að gera,“ sagði Sif í viðtalinu.

Hún sagðist þó ekki ver að fara fet. Sif ætlar ekki að yfirgefa knattspyrnuna þó og telur sig hafa nóg fram að færa enda gríðarlega reynslumikil. Ásamt því að spila hér á landi spilaði hún í Þýskalandi sem og til fjölda ára með Kristianstad í Svíþjóð. Þá spilaði Sif með 90 A-landsleiki.

„Ég er búin að tuða um þetta lengi að leikmenn sem að hafa spilað á háu leveli eiga ekki að láta sig hverfa, við höfum reynslu úr þessum heimi sem er mikilvæg fyrir þróunina. Fótboltinn á Íslandi á eftir að taka ákveðin skref fram á við og ég veit að ég með mína reynslu á eftir að finna mér einhvern stað,“ bætti Sif að endingu við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×