Erlent

Tíu látnir í flóðunum í Grikklandi og fleiri saknað

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúar þorpa sem eru undir vatni voru fluttir með þyrlu á þurrt land í Karditsa í Þessalíu-héraði.
Íbúar þorpa sem eru undir vatni voru fluttir með þyrlu á þurrt land í Karditsa í Þessalíu-héraði. AP/Dimitris Papamitsos/forsætisráðuneyti Grikklands

Tala látinna í flóðunum í Grikklandi hækkar enn. Nú eru tíu taldir af og fjögurra til viðbótar er saknað. Björgunarlið flytur enn hundruð íbúa þorpa á hamfararsvæðinu burt með þyrlum og bátum.

Alls eru 22 látnir í flóðunum sem fylgdu úrhellisrigningu sem hófst í Grikklandi, Búlgaríu og Tyrklandi á þriðjudag. Í Grikklandi féll sums staðar tvöföld ársúrkoma Aþenu á hálfum sólarhring.

Rigningunni slotaði en flóðvatn hélt áfram að rísa eftir að áin Pineios flæddi yfir bakka sína nærri borginni Larissu. Fólki var skipað að flýja heimili sín á flóðasvæðinu. Búið er að bjarga um 1.800 manns úr þorpum sem fóru undir vatn með þyrlum og bátum. Tuttugu þyrlur og þúsund björgunarsveitarmenn unnu að björgunarstarfinu, að sögn stjórnvalda.

Úthverfi borgarinnar Larissu í Þessalíu á kafi í vatni í dag.AP/Vaggelis Kousioras

Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra, segist hafa óskað eftir fjárhagsaðstoð frá Evrópusambandinu fyrir uppbyggingarstarf sem blasir við eftir hamfarirnar.

Flóðin komu fast á hæla mannskæðra gróðurelda í Grikklandi sem brenndu skóga og ræktarland. Á þriðja tug manna fórust í eldunum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×