Erlent

Saka Úkraínu­menn um um­fangs­mestu á­rásirnar til þessa

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona grætur við gröf sonar síns sem féll í stríðinu við Rússa í Kharkiv á þjóðhátíðardegi Úkraínu í gær.
Kona grætur við gröf sonar síns sem féll í stríðinu við Rússa í Kharkiv á þjóðhátíðardegi Úkraínu í gær. AP/Bram Janssen

Rússneska varnarmálaráðuneytið heldur því fram að Úkraínumenn hafi skotið flugskeyti að Moskvu og ráðist á Krímskaga með á fimmta tug dróna í dag. Ef rétt reynist eru það umfangsmestu árásir Úkraínumanna á Rússland og hernumin svæði til þessa.

S-200-flugskeyti var skotið niður yfir Kaluga-héraði sem liggur að Moskvu-héraði, að sögn ráðuneytisins. Vladislav Shapsha, ríkisstjóri Kaluga, segir engan hafa sakað þegar flugskeytið hrapaði. Reuters-fréttastofan segir að flugvellir í nágrenni Moskvu hafi verið lokaðir í nokkrar klukkustundir vegna árásarinnar.

Þá segja Rússar að Úkraínumenn hafi sent 42 dróna til Krímskaga, úkraínska landsvæðisins sem Rússar innlimuðu ólöglega árið 2014. Níu þeirra hafi verið skotnir niður en hinir 33 stöðvaðir með rafrænum vörnum þannig að þeir hröpuðu áður en þeir náðu skotmörkum sínum.

Mikhail Ravzozhajev, yfirmaður hernámsins í hafnarborginni Sevastopol á Krímskaga, segir að fjöldi dróna hafi verið stöðvaður við mörk borgarinnar.

Stjórnvöld í Kænugarði hafa ekki tjáð sig um fullyrðingar Rússa. Þau hafa nánast aldrei lýst yfir ábyrgð á árásum á Rússland eða hersetin svæði í Úkraínu. Árásum af þessu tagi hefur farið fjölgandi eftir að tveir drónar voru skotnir niður yfir Kreml í maí.

Úkraínumenn telja sig enn geta endurheimt Krímskaga þrátt fyrir úrtöluraddir. Leyniþjónusta úkraínska hersins sagði að hún hefði komið liðsmönnum sínum á land á vestasta hluta skagans, og plantað niður úkraínskum fána eftir skotbardaga við rússneska hermenn í vikunni.


Tengdar fréttir

Deilt um gagnsóknina

Bandarískir og úkraínskir herforingjar eru sagðir hafa deilt um framkvæmd gagnsóknar Úkraínumanna. Valerí Salúsjní, yfirmaður úkraínska hersins, segir hermenn sína nærri því að brjóta sér leið í gegnum varnir Rússa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×