Íslenski boltinn

Fjölnir pakkaði Grinda­vík saman

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fyrirliðinn Hans Viktor var á skotskónum í kvöld.
Fyrirliðinn Hans Viktor var á skotskónum í kvöld. Facebook-síða Fjölnis

Fjölnir vann 5-1 sigur á Grindavík í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld. Þá gerðu Ægir og Grótta 2-2 jafntefli en heimamenn í Ægi voru manni færri allan síðari hálfleikinn.

Fjölnir er í baráttunn um að enda sem efst í umspili Lengjudeildarinnar um sæti í Bestu deild karla að ári á meðan Grindavík hefur verið að vakna eftir að Brynjar Björn Gunnarsson tók við stjórnartaumunum. Grindvíkingar hafa látið sig dreyma um að komast í umspilið en þær vonir urðu að litlu sem engu í kvöld.

Leikurinn var einstefna frá upphafi til enda. Máni Austmann Hilmarsson kom Fjölni yfir á 7. mínútu og Bjarni Gunnarsson tvöfaldaði forystuna um miðbik fyrri hálfleiks. Hans Viktor Guðmundsson og Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson bættu við mörkum í síðari hálfleik áður en Dagur Ingi Hammer Gunnarsson minnkaði muninn fyrir Grindavík.

Axel Freyr Harðarson kórónaði góðan leik Fjölnis og tryggði liðinu 5-1 sigur með marki skömmu eftir að Grindavík minnkaði muninn. Fjölnir er nú með 33 stig í 3. sæti á meðan Grindavík er í 8. sæti með 22 stig.

Botnlið Ægis nældi í stig gegn Gróttu í kvöld en Grótta er í 8. sæti eftir leik kvöldsins. Lokatölur í Þorlákshöfn 2-2 þar sem Atli Rafn Guðbjartsson og Brynjólfur Þór Eyþórsson skoruðu mörk Ægis en Gabríel Hrannar Eyjólfsson og Grímur Ingi Jakobsson skoruðu mörk gestanna. Anton Fannar Kjartansson fékk svo rautt spjald í liði Ægis á 45. mínútu.

Grótta er með 22 stig í 7. sæti á meðan Ægir er með 9 stig í botnsætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×