Umfjöllun og viðtöl: KA - Breiðablik 1-1 | Mistókst að vinna tíu Blika

Árni Gísli Magnússon skrifar
_O2A7844 (2)
VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Breiðablik hvíldi sjö mikilvæga leikmenn á meðan KA spilaði á fleiri þreyttum mönnum. Svo fór að liðin skildu jöfn, 1-1, eftir að heimamenn spiluðu seinni hálfleik manni fleiri.

Fyrsta alvöru færi leiksins kom á 17. mínútu og úr varð mark. Ágúst Orri Þorsteinsson kom með góða fyrirgjöf frá hægri inn á teiginn þar sem færeyski markaskorarinn Klæmint Olsen vann skallaeinvígi og kom boltanum í netið og Blikum í forystu.

Nokkrum mínútum síðar átti miðvörðurinn Oliver Stefánsson frábæra stungusendingu frá eigin vallarhelmingi yfir vörn KA þar sem Eyþór Aron Wöhler kom á ferðinni, tók boltann á kassann en skaut fram hjá einn gegn Jajalo í marki gestanna.

Eftir tæpan hálftíma fékk KA hornspyrnu þar sem Harley Williard spyrnti boltanum inn á teig og Dusan Brkovic mætti á nærstöngina og náði skallanum en Blikum tókst að bjarga á marklínu.

Þegar komið var fram á þriðju mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk Elfar Árni langa sendingu yfir vörn Breiðabliks og Oliver Stefánsson reif hann niður og fékk að líta rautt spjald og vítaspyrna dæmd fyrir KA. Á punktinn fór Daníel Hafsteinsson og skoraði örugglega.

Blikar mættu ákveðnir út í seinni hálfleik og það var alls ekki að sjá að þeir væru að spila manni færri. Ívar Örn Árnason var hársbreidd frá því að skora sjálfsmark á upphafsmínútum hálfleiksins en sem betur fer fyrir hann og KA fór boltinn í stöngina og út.

Eftir rúmar 10 mínútur í senni hálfleik átti Ingimar Stöle, hægri bakvörður KA, frábæran sprett upp hægri vænginn og kom með hnitmiðaða fyrirgjöf á kollinn á Elfari Árna sem skallaði boltann yfir úr ákjósanlegu færi.

Lítið var um fleiri færi framan af þrátt fyrir að Blikar væru að spila betur en Kristinn Steindórsson ógnaði tvisvar með föstum skotum rétt við vítateiginn en Jajalo sá til þess að leikar voru áfram jafnir.

Það var svo í uppbótartímanum sem færin komu á færibandi. Fyrst var það Daníel Hafsteinsson sem fékk sendingu inn á teig þar sem hann var einn gegn Brynjari Atla í marki Blika sem varði frábærlega. Andartaki síðast settu Blikar langan bolta yfir vörn KA þar sem Kristinn Steindórsson var fremstur og hljóp einn í gegn langa leið þar sem hann var aleinn gegn Jajalo í marki KA en skot hans fór yfir markið. 

Fjörið var ekki búið enn og KA fékk annað tækifæri til að stela sigrinum þegar Daníel Hafsteinsson setti boltann fyrir markið þar sem nokkrir KA menn voru mættir til að reyna troða boltanum yfir línuna en varnarmaður Blika komst fyrst í boltann og bjargaði sennilega marki.

Niðurstaðan því 1-1 jafntefli eftir ótrúlegar lokamínútur þar sem bæði lið fengu tækifæri til að hirða stigin þrjú.

Af hverju varð jafntefli?

Liðin skoruðu sitt hvort markið í fyrri hálfleik og KA menn nýttu sér það engan veginn að vera manni fleiri í seinni hálfleik og í raun voru það Blikar sem ógnuðu meira. Bæði lið fengu svo dauðafæri í lokin til að stela sigrinum en allt kom fyrir ekki.

Hverjir stóðu upp úr?

Daníel Hafsteinsson gaf allt sitt í leikinn á miðjunni í dag og skoraði úr vítinu. Ingimar Torbjörnsson Stöle var fjörugur í hægri bakverðinum og var óheppinn að leggja ekki upp mark í dag.

Í liði Breiðabliks var Ágúst Eðvald Hlynsson öflugur og fór oftar en einu sinni auðveldlega fram hjá nokkrum varnarmönnum KA. Brynjar Atli Bragason varði frábærlega dauðafæri Daníels undir lokin og á hrós skilið.

Hvað gekk illa?

KA gekk bölvanlega að ná stjórn á leiknum þrátt fyrir að spila manni fleiri allan seinni hálfleik. Þá klúðruðu bæði lið dauðafæri til að vinna leikinn í uppbótartíma.

Hvað gerist næst?

Bæði lið spila seinni leikinn í viðureignum sínum í Evrópukeppni á fimmtudaginn kemur. KA mætir Club Brugge í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar á Laugardalsvelli á meðan Breiðablik mætir Zrinjski í þriðju umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á Kópavogsvelli. Róðurinn er þungur þar sem bæði KA og Breiðablik eru fjórum mörkum undir eftir fyrri leik liðanna.

Næsti deildarleikur KA er útileikur við Fram sunnudaginn 20. ágúst og næsti deildarleikur Breiðbliks er heima gegn Keflavík 21. ágúst.

„Þurfum á einhverjum tímapunkti að hætta að vorkenna okkur yfir ferðalagi“

Úr leik KA og Dundalk fyrr í sumarVísir/Hulda Margrét

Eiður Ben Eiríksson, aðstoðarþjálfari KA, var ekki nægilega sáttur með lið sitt eftir 1-1 jafntefli gegn Breiðablik þar sem KA spilaði manni fleiri allan seinni hálfleik.

„Ég lít á þetta sem tvö töpuð stig. Við nýttum okkur ekki nægilega vel þær stöður sem voru í boði og Blikarnir buðu okkur svolítið bara upp í dans með því að vera einum færri en mér fannst við ekki nýta okkur það nægilega vel og þess vegna lít ég á þetta sem töpuð stig en að sama skapi erum við líka bara heppnir oft á tíðum. Þeir fá hörku færi og geta líka klárað þetta en að sama skapi nýtum við líka ekki nokkra sénsa“

Hvernig fannst Eiði liðið bregðast við eftir að leikmaður Breiðabliks fær rautt spjald?

„Ekki nægilega vel. Mér finnst við slaka á og mér finnst leikmyndin vera svipuð og þegar við spiluðum við HK hérna og þá vorum við einum færri og þá duttu HK-ingarnir bara niður á það plan og mér fannst við gera það bara svipað. Við nýttum okkur þetta illa, nýttum yfirtöluna illa og vorum bara fljótt pirraðir og vorum farnir að spila snemma í fyrri hálfleiknum eins og við vorum að spila síðustu mínúturnar í leiknum.“

Breiðablik hvíldi sjö mikilvæga leikmenn í leiknum. Kom það þjálfarateymi KA á óvart og hverju breytti það komandi inn í leikinn?

„Nei það kom mér ekkert á óvart. Okkur grunaði þetta fyrirfram þannig við vorum búnir að búa okkur undir það en það svo sem skiptir ekki máli þegar þú ert kominn inn á völlinn, þetta er bara KA á móti Breiðablik, og sama hverjir spila leikinn þá eigum við að gera vel og sækja þrjú stig en því miður var það bara eitt í dag.“

Sjá fyrir endann á Evrópukeppninnni

Gríðarlegt álag hefur verið á bæði KA og Breiðablik vegna þátttöku í Evrópukeppnum en KA þarf til að mynda að ferðast suður til að spila heimaleiki sína í Evrópukeppni. Hafði þetta álag áhrif á það að KA skyldi ekki spila betur manni fleiri?

„Já að einhverju leyti, en núna sjáum við fyrir endann á Evrópukeppninni. Við eigum seinni leikinn á móti Club Brugge eftir og auðvitað þarf kraftaverk til að sá leikur vinnist en við ætlum að fara og spila leikinn og eiga góðan leik og undirbúa okkur vonandi fyrir komandi Evrópuverkefni í framtíðinni en við þurfum á einhverjum tímapunkti að hætta að vorkenna okkur yfir ferðalagi og einhverju svoleiðis.“

„Við þurfum bara að spila á móti og gera vel í þeim leikjum sem eru í boði. Það eru engir leikir mikilvægari en einhver annar, það er bara hver einasti leikur mikilvægur, og við getum ekki verið að bíða eftir einhverjum bikarúrslitaleik, bíða eftir Evrópuleik, við þurfum bara að spila leikina sem eru í boði og þetta er bara staðan.“

„Við viljum vera í Evrópukeppni og þetta er bara staðan í dag, við þurfum að ferðast í heimaleikina okkar og við vitum það en við viljum vera í Evrópukeppni og ef við ætlum að vera í Evrópukeppni er þetta bara staðan.“

KA er 5-1 undir í einvíginu við Club Brugge eftir fyrri leikinn. Hvernig er að leggja upp seinni leik gegn svona stórliði vitandi að líkurnar á að fara áfram eru nær hverfandi?

„Í rauninni bara að gera betur en í síðasta leik. Við sáum það alveg að það voru móment sem við gátum gert miklu betur í. Við töpum þessum leik á síðustu fimm mínútunum í fyrri hálfleik. Við lögðum upp með það í hálfleiknum að við ætluðum að gera betur í seinni hálfleiknum og það var í rauninni ekkert annað í stöðunni þannig seinni hálfleikurinn, við horfum í gömlu klisjuna, hann fór 1-1 og við gerðum hrikalega vel í seinni hálfleik.“

„Í þessum leik höfum við allt að vinna og við höfum allt til að bæta okkur og vonandi bara getum við farið í þann leik og staðið okkur vel og undirbúið okkur svolítið fyrir það að spila bikarúrslitaleikinn á Laugardalsvelli.“

Ívar Örn Árnason hefur misst af nokkrum leikjum undanfarið vegna meiðsla, m.a. fyrri leikinn á móti Club Brugge. Er hann orðinn alveg klár í komandi verkefni eða þarf hann að sitja hjá í einhverjum leikjum?

„Klárlega bara vonandi. Það þarf bara að taka stöðuna á honum alltaf dag frá degi og hann er bara lykilmaður í þessu liði og við viljum hafa hann alltaf inni á vellinum. Því miður þá var þetta staðan á móti Club Brugge að þurfa aðeins að hvíla hann með það fyrir augum að geta náð honum kannski 100% heilum á einhverjum tímapunkti og við þurfum bara á honum að halda í hverjum einasta leik og vonandi getum við náð því að þetta verði betra og betra. Auðvitað hjálpa leikirnir ekkert til, þá kemur alltaf auka álag á þetta, en vonandi skilar þessi hvíld því að hann geti spilað meira út tímabilið.“

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira