Enski boltinn

Tom Brady búinn að kaupa sig inn í Birmingham City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Brady lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil sem var það 23. hjá honum í NFL deildinni.
Tom Brady lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil sem var það 23. hjá honum í NFL deildinni. Getty/Sebastian Widmann

NFL goðsögnin Tom Brady er núna farinn að skipta sér að enskri knattspyrnu. Hann er nú minnihluta eigandi í enska b-deildarfélaginu Birmingham City.

Brady er sá eini sem hefur unnið Super Bowl sjö sinnum en hann er af mörgum talinn vera besti NFL leikmaður allra tíma.

Brady er nýbúinn að leggja skóna á hilluna og hefur síðan verið duglegur að kaupa sig inn í íþróttafélög. Hann hefur greinilega mikinn áhuga á því að fjárfesta þar.

Að þessu sinni er Brady í samstarfi með eigendum Birmingham í Knighthead Capital Management LLC fjárfestingafélaginu. Brady verður stjórnarformaður nýrrar ráðgjafanefndar félagsins. Hann mun vinna þar náið með stjórn félagsins.

„Svona er staðan. Ég er formlega að koma inn í stjórnina hjá Birmingham City Football Club. Þið spyrjið ef til vill hvað ég viti um enska fótboltann. Við skulum bara segja að ég eigi margt eftir ólært. Ég veit aftur á móti sitt hvað um að það að vinna og ég held að það muni skila sér nokkuð vel,“ sagði Tom Brady í yfirlýsingu.

„Ég veit að leiðin að árangri byrjar á því að leggja mikla vinnu á sig þegar heimurinn er ekki að horfa. Ég veit það líka að lið er ekkert án þess að hafa borgina sína að baki sér. Mikilvægast er að mér líkar það ágætlega að vera í litla liðinu. Vegurinn hefur verið langur fyrir Birmingham en stuðningsmennirnir hafa aldrei misst trúna. Sjáumst fljótlega á St Andrew vellinum. Núna er tími til að byrja vinnuna,“ sagði Brady.

Brady er ekki fyrsti NFL-leikmaðurinn sem fjárfestir í ensku fótboltafélagi í sumar því áður hafði JJ Watt einnig orðið minnihlutaeigandi í enska úrvalsdeildarfélaginu Burnley í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×