Erlent

Tuttugu og fimm fórust í skógareldum í Alsír

Heimir Már Pétursson skrifar
Sjálfboðaliði að vísa veginn nærri þorpinu Vati á Rhodes eyju í Grikklandi. Þar fór hitinn á ný yfir 40 gráður í dag.
Sjálfboðaliði að vísa veginn nærri þorpinu Vati á Rhodes eyju í Grikklandi. Þar fór hitinn á ný yfir 40 gráður í dag. AP/Petros Giannakouris

Skógareldar halda áfram að breiða úr sér víða um suður Evrópu og norður Afríku. Þriðja hitabylgjan skall á Grikklandi í dag þegar hitinn fór á ný yfir fjörutíu gráður. Tuttugu og fimm manns hafa farist í skógareldum í Alsír.

Frá því seinni partinn í gær og í dag hefur verið barist við skógarelda í Grikklandi, Króatíu, Tyrklandi, á Sikiley á Ítalíu og í Alsír í norður Afríku. 

Tuttugu og fimm manns, þar af tíu slökkviliðsmenn, hafa farist í skógareldum í Alsír. Þessi mynd var tekin í Bouira um 100 kílómetra frá Algeirsborg.AP

Miklir eldar loga nærri höfuðborginni Algeirsborg og víðar. Fimmtán íbúar hafa farist í eldunum ásamt tíu slökkviliðsmönnum sem börðust við eldana. Á þriðja tug manna hefur slasast. Eldarnir dreifast hratt vegna hvassviðris og hlífa hvorki skógum né ræktarlandi í sextán héruðum Alsírs.

Í Grikklandi voru menn að vona að hitinn færi lækkandi en í morgun skall þriðja hitabylgjan í röð á landinu þegar hitinn fór á ný yfir fjörutíu gráður. 

Undanfarna tólf daga hafa daglega brotist út skógareldar á um 50 stöðum í Grikklandi. Það eru um 600 eldar á þessu tímabili.AP/Petros Giannakouris

Pavlos Marinakis talsmaður stjórnvalda í Grikklandi segir 19 þúsund manns hafa verið flutt á brott frá hættusvæðum á Rhodes undanfarna daga. Sextán þúsund hafi verið flutt landleiðina en um þrjú þúsund með bátum. Þetta væru mestu mannflutningar í sögu Grikklands.

„Við stöndum frammi fyrir nýjum veruleika. Þetta er tólfti dagurinn í röð þar sem eldar brjótast daglega út á um fimmtíu stöðum. Það þýðir að skógareldar hafa kviknað á um 600 stöðum á þessu tímabili,“ Marinakis.

Miklir skógareldar hafa brotist út í nágrenni hinnar sögulegu borgar Dubrovnik í Króatíu. Hvassviðri hraðar útbreiðslu eldanna. Borgin er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og þar er nú krökkt af ferðamönnum. Níutíu og fimm slökkviliðsmenn með sextán slökkvibíla berjast við eldana og njóta aðstoðar flughers landsins sem dreifir vatni yfir svæðið úr lofti.

Miklir skógareldar hafa brotist út á Sikiley, meðal annars nærri byggð í nágrenni Curcuraci í Messina.AP/ítalska slökkviliðið

Þá hafa miklir skógareldar brotist út á Sikiley á Ítalíu og logar víða mjög nálægt byggð. Einnig hafa tugir heimila og eitt sjúkrahús verið rýmd nærri Miðjarðarhafsbænum Kemer í Tyrklandi. Þar brenna skógareldar á um 120 hekturum lands. Tíu vatnsflugvélar og tuttugu og tvær þyrlur hafa verið notaðar til að dreifa vatni yfir eldana. Þar vonast menn til að ráða niðurlögum eldanna í dag.


Tengdar fréttir

Þúsundir ferðamanna flýja Grikkland

Þúsundir ferðamanna reyna að komast heim til sín frá Rhodes eyju í Grikklandi vegna stjórnlausra skógarelda þar. Eldar loga á tugum staða í Grikklandi og hefur fjöldi ríkja sent Grikkjum aðstoð undanfarna daga.

Skógareldar ógna grísku eyjunum

Skógareldar brenna nú á fjölmörgum grískum eyjum en einna verst er ástandið á ferðamannaeyjunni Ródos.

Yfir þúsund börn flúðu sumar­búðir vegna gróður­elda

Tólf hundruð börn þurftu að yfirgefa sumarbúðir vestan Aþenu á meginlandi Grikklands eftir að gróðureldar brutust þar út í fyrradag. Eldarnir eru ekki þeir fyrstu sem koma í kjölfar mikillar hitabylgju sem nú ríður yfir í Evrópu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×