Umfjöllun og viðtöl: HK - Stjarnan 1-1 | Jafnt í Kórnum

Hinrik Wöhler skrifar
HK-ingar þurfa á sigri að halda.
HK-ingar þurfa á sigri að halda. Vísir/Hulda Margrét

Leikur HK og Stjörnunnar endaði með 1-1 jafntefli í Bestu deild karla í kvöld. Leikurinn fór fram í Kórnum og kom Atli Hrafn Andrason heimamönnum yfir með skalla á 16. mínútu en Adolf Daði Birgisson jafnaði leikinn í upphafi síðari hálfleiks með laglegri vippu.

Stjarnan stillti upp sama byrjunarliði og í sigurleiknum í síðustu umferð á móti Val en Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, þurfti að gera breytingar á sínu liði vegna meiðsla. Atli Arnarson, Birkir Valur Jónsson og Eyþór Wöhler meiddust allir í leiknum á móti Fylki og voru þremenningarnir ekki í leikmannahóp HK í kvöld.

Stjörnumenn byrjuðu að krafti og voru meira með boltann í upphafi leiks. Eftir tíu mínútna leik átti Jóhann Árni Gunnarsson langskot sem endaði í þverslánni.

Á 16. mínútu kom fyrsta mark leiksins og það var heimamanna. Hassan Jalloh kom með fyrirgjöf inn í vítateig sem rataði á kollinn á Atla Hrafni Andrasyni. Hann var á auðum sjó og kom knettinum yfir línuna. Boltinn fór í varnarmann Stjörnunnar og breytti um stefnu og truflaði Árna Snæ Ólafsson í markinu.

Stjarnan hélt áfram að skapa sér fínar skotstöður nálægt marki HK og áttu þó nokkur skot í fyrri hálfleik sem fóru rétt framhjá marki heimamanna. Þrátt fyrir pressu gestanna komu ekki fleiri mörk í fyrri hálfleik og leiddi HK 1-0 í hálfleik.

Stjarnan hélt áfram uppteknum hætti í seinni hálfleik og loks náðu gestirnir að brjóta ísinn á 54. mínútu. Jóhann Árni Gunnarsson sendi hnitmiðaða sendingu inn í miðjan vítateiginn þar sem Adolf Daði Birgisson var mættur. Adolf kláraði sóknina með stæl og vippaði boltanum snyrtilega yfir Arnar Frey í marki HK og var leikurinn orðinn jafn.

HK náði að skapa sér hættulegt færi þegar Arnþór Ari Atlason náði á einhvern hátt að spóla sig í gegnum mikinn varnarmúr Stjörnunnar inn í vítateignum. Sóknin endaði á skoti í markteignum sem Árni Snær Ólafsson náði að bregða fæti fyrir.

Fleiri urðu mörkin ekki þrátt fín marktækifæri undir loks leiks og þurftu liðin að sætta sig við eitt stig á haus.

Af hverju endaði leikurinn með jafntefli?

Vörn heimamanna réði ágætlega við sóknir Stjörnunnar, sérstaklega í fyrri hálfleik, og náðu Stjörnumenn ekki að skapa sér nein dauðafæri þrátt fyrir að hafa haft yfirhöndina mest allan leikinn. Gestirnir fara líklegast svekktari heim með að hafa ekki náð að tryggja sér stigin þrjú.

Hverjir stóðu upp úr?

Jóhann Árni Gunnarsson var sprækur á miðjunni hjá Stjörnunni og var arkitektinn af jöfnunarmarki Stjörnunnar. Hann var óheppinn að skora ekki í upphafi leiks þegar hann átti skot fyrir utan vítateig sem endaði í þverslánni.

Það var mikil barátta í Ahmad Faqa í vörn HK í fyrri hálfleik og átti hann meðal annars frábæra tæklingu sem kom í veg fyrir að Emil Atlason hefði sloppið einn í gegn.

Hvað gekk illa?

Stjarnan gekk erfiðlega að opna vörn HK framan af leik og flest skotin þeirra komu fyrir utan vítateig, oftar en ekki enduðu skotin framhjá eða yfir markinu.

Hvað gerist næst?

Það er skammt stórra högga á milli hjá Stjörnunni en þeir mæta Fram á miðvikudaginn. Liðið á leik til góða á flest lið og leika þar af leiðandi í miðri viku.

HK heldur norður og mætir KA í næstu umferð. Leikurinn fer fram eftir viku, sunnudaginn 30. júlí.

Jökull: „Margir farið héðan með minna“

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, telur að sínir menn hafi verið betri í leiknum í dag en var þó ekki ósáttur með fenginn hlut.

„Örugglega er þetta sanngjarnt, mér fannst við heilt yfir betra liðið á vellinum en mér fannst vanta bit í fyrri hálfleik og við erum mjög svekktir með markið sem við fáum á okkur. Svona týpískt HK mark sem við eigum að koma í veg fyrir,“ sagði Jökull eftir leik.

Stjörnumenn skora jöfnunarmarkið á 54. mínútu og er Jökull ánægðari með spilamennskuna í þeim síðari.

„Mér fannst við vera með tök allan leikinn. Við hreyfðum boltann hægt í fyrri hálfleik og þeir biðu eftir mistökum. Við réttum þeim nokkur móment upp í hendurnar í fyrri hálfleik þannig það vantaði smá bit og það var betra í seinni hálfleik. Hefðum viljað fá betri 90 mínútur,“ sagði Jökull um frammistöðuna í kvöld.

„Þetta er bara eitt stig og margir farið héðan með minna þannig hvort þetta eru tvö töpuð stig eða eitt unnið, ég átta mig ekki á því,“ bætti Jökull við.

Jökull býst ekki við að styrkja hópinn í félagsskiptaglugganum eða allavega þangað til að annað kemur í ljós.

„Við erum mjög rólegir og alltaf mikill áhugi á okkar leikmönnum þannig það kemur í ljós,“ sagði Jökull að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira