Umfjöllun og viðtöl: Breiða­blik - ÍBV 3-1 | Meistararnir kláruðu Eyja­menn í fyrri hálf­leik

Kári Mímisson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik vann ÍBV í fyrsta leik 16. umferðar Bestu deildar karla nú í kvöld. Leikið var á Kópavogsvelli og fór leikar 3-1 fyrir heimamenn eins og áður segir.

Leikurinn fór vel af stað í kvöld og skiptust liðin á því að komast stýr leiknum. Eyjamenn fengu sannkallað dauðafæri snemma leiks eftir hræðileg varnarmistök hjá Damir Muminovic. Damir átti þá martraðar þversendingu sem fór beint á Halldór Jón Sigurð Þórðarson. Halldór rendi boltanum á Oliver Heiðarsson sem fór illa að ráði sínu og lét Anton Ara Einarsson, markvörð Blika verja frá sér.

Eftir tæplega 20 mínútna leik kom fyrsta mark leiksins og það voru heimamenn í Breiðablik sem gerðu það. Jason Daði tók þá stutta hornspyrnu á Höskuld sem kom boltanum fyrir þar sem Damir náði á einhvern ótrúlegan hátt að teygja sig í hann og skalla boltann fram hjá Guy Smith í marki Eyjamanna.

Damir fagnar marki sínu.Vísir/Hulda Margrét

15 mínútum seinna tvöfölduðu Blikar svo forystu sína. Þar var að verkum hinn hafsent Blika, Viktor Örn Margeirsson og aftur eftir hornspyrnu frá hægri. Aftur tók Jason spyrnuna stutt á Höskuld sem í þetta sinn setti boltann út á Viktor Karl Einarsson sem kom boltanum inn á teig í fyrsta þar sem Viktor Margeir skallaði boltann í netið eftir ansi dapran varnarleik frá Alex Frey Hilmarssyni.

Það var svo rétt fyrir hálfleik sem þriðja markið Blika kom. Jason Daði fékk þá allan tíma í heiminum til þess að koma með frábæra sendingu inn á teiginn þar sem Færeyskamarkavélin, Klæmint Olsen hafði laumað sér á milli Elvis Okello og Eiðs Aronar og skoraði örugglega framhjá Smith í markinu. Staðan 3-0 í hálfleik.

Tómas Bent, leikmaður ÍBV.Vísir/Hulda Margrét

Seinni hálfleikur fór rólega af stað og greinilegt að Blikar ætluðu að reyna að spara byssupúðrið fyrir stóra leikinn á þriðjudaginn gegn FC Köbenhavn. Eyjamenn ætluðu hins vegar að selja sig dýrt og tókst á 55. mínútu að minnka muninn. Það gerði Hermann Þór Ragnarsson. 

Eiður Aron átti þá frábæran bolta úr vörninni inn á Oliver Heiðarsson sem gerði mjög vel og kom honum fyrir á Arnar Breka. Arnar Breki var í upplögðu færi til að láta vaða en rendi honum þess í stað út á Hermann sem smellti honum beint í slánna og inn. Glæsilegt mark og gestirnir með nægan tíma til að halda áfram að þjarma að heimamönnum.

Oliver Heiðarsson komst næst því að minnka muninn niður í eitt mark þegar Damir Muminovic bjargaði skalla hans á línu. Nær komust Eyjamenn ekki en Blikar voru mjög öruggir í öllum sínum aðgerðum og tókst nokkuð þægilega að sigla þessum sigri heim.

Blikar höfðu góða ástæðu til að fagna í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Breiðablik?

Liðið gekk frá leiknum í seinni hluta fyrri hálfleiks og skoraði þrjú ansi þægileg mörk. Hugsa að Hermann og þjálfarateymi hans setji spurningarmerki við varnarleik liðsins í öllum þessum mörkum.

Hverjir stóðu upp úr?

Jason Daði var frábær í fyrri hálfleik og Davíð Ingvarsson sýndi frábæra frammistöðu í 150. leiknum sínum fyrir Breiðablik.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Eyjamann í öllum mörkunum í dag var ekki boðlegur. Á sama tíma fór liðið illa með nokkur færi svo jafn vel þó að sigur Blika hafi verið frekar sannfærandi þá þurfti ekki mikið til að Eyjamenn hefðu getað fengið eitthvað hér í dag.

Hvað gerist næst?

Breiðablik leikur næst gegn danska stórveldinu FC Köbenhavn á þriðjudaginn. Það verður spennandi að sjá hvernig Blikum á eftir að ganga gegn þeim dönsku en hjá FCK leika Íslendingarnir Ísak Bergmann Jóhannesson og Orri Steinn Óskarsson en sá síðarnefndi er sonur Óskars Hrafns Þorvaldssonar, þjálfara Breiðabliks. ÍBV fara næst í Víkina, sunnudaginn 30. júlí og mæta toppliðið Víkings. Leikur Breiðabliks gegn FCK hefst klukkan 19:45 og leikur Víkings og ÍBV hefst klukkan 17:00.

Létum þá hafa fyrir þessu í seinni hálfleik

Hermann, þjálfari ÍBV.Vísir/Hulda Margrét

Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, var að vonum svekktur með tapið í kvöld. Hann segist þó vera sáttur með að liðið í seinni hálfleik þar sem Eyjamenn náðu að sýna sitt rétta andlit.

„Ég er vonsvikinn með fyrri hálfleikinn en svo er ég gríðarlega stoltur af liðinu í seinni hálfleik. Þar náum við að sýna okkar rétta andlit. Við fundum ekki alveg pressu taktinn og náðum ekki að komast nógu nálægt leikmönnum. Fengum samt dauðafæri í stöðunni 0-0 og þegar þú mætir á þennan hérna völl þá verður þú að refsa þegar þú færð færin, mörk breyta leikjum. Það voru vonbrigði að nýta þetta ekki betur og svo gríðarleg vonbrigði að fá á sig þessi tvö mörk úr föstum leikatriðum sem gerir þetta helvíti erfitt. Við þurftum aðeins að þjappa okkur saman í hálfleik sem og við gerðum. Ég er mjög stoltur af liðinu í seinni hálfleik. Við komumst í fínar stöður, skoruðum mark og hefðum getað gert þeim þetta aðeins erfiðar en létum þá hafa fyrir þessu í seinni hálfleik. Það var allt annar bragur á okkur.“

Spurður út í framhaldið telur Hermann liðið vera á upp leið og segist vera ánægður með pressu liðsins í undanförnum leikjum.

„Það er búið að vera flottur taktur í liðinu síðustu 6-8 vikurnar. Við þurfum að njóta þess að spila og berjast. Við viljum spila okkar pressu leik og höfum haft gaman af því og náð að gera góða hluti með það.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira