Erlent

„Djöfulleg“ árás gerð á Odessa í nótt

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Odessa í gær. Mörgum eldflaugm var skotið að borginni í nótt og tiltölulega fáar þeirra voru skotnar niður.
Frá Odessa í gær. Mörgum eldflaugm var skotið að borginni í nótt og tiltölulega fáar þeirra voru skotnar niður. AP Photo/Jae C. Hong

Rússar létu sprengjum rigna yfir hafnarborgina Odessa í nótt en árásin beindist sérstaklega að höfn borgarinnar. Úkraínumenn lýsa árásinni sem djöfullegri en upplýsingar um skemmdir og mannfall liggja ekki fyrir. Þá þurftu á þriðja þúsund manns að flýja heimili sín á Krímskaga eftir árás Úkraínumanna.

Úkraínumenn segja að 63 eldflaugar, stýriflaugar og sjálfsprengidróna hafa verið notaða til árásarinnar en 37 eldflaugar og drónar voru skotnar niður. Það er töluvert minna en Úkraínumenn hafa verið að skjóta niður að undanförnu

Flugher Úkraínu segir að þrettán af sextán Kalibr stýriflaugar hafi verið skotnar niður við Odessa. Þá hafi 23 af 32 sjálfsprengidrónum verið skotnir niður og ein stýriflaug af gerðinni Kh-59. AP fréttaveitan hefur einnig eftir Úkraínumönnum að átta Kh-22 eldflaugum hafi einnig verið skotið að borginni og sex Oniks stýriflaugum hafi verið miðað að innviðum í og við Odessa.

Talsmaður hernaðaryfirvalda í Odessa sagði árásina í nótt hafa verið djöfullega.

„Þeir eru að reyna að hræða allan heiminn. Sérstaklega þá sem vilja halda kornsamkomulaginu áfram. Úkraínu, Tyrkland og Sameinuðu þjóðirnar,“ sagði talsmaðurinn sem heitir Serhiy Bratchuk, samkvæmt frétt Reuters. Hann hét því einnig að íbúar Odessa myndu ekki láta hræða sig.

Embættismenn í Úkraínu segja Shahed sjálfsprengidrónum frá Íran einnig hafa verið flogið að Kænugarði en þeir hafi allir verið skotnir niður.

Ráðamenn í Rússlandi tilkynntu á mánudaginn að þeir ætluðu ekki að framlengja kornsamkomulagið svokallaða, sem gerði Úkraínumönnum kleift að flytja korn út frá Odessa, og hafa heitið hefndum fyrir árás Úkraínumanna á brúnna yfir Kerch-sund, sem tengir Krímskaga við meginland Rússlands.

Sjá einnig: Brotthvarf Rússa frá kornsamkomulagi fordæmt um allan heim

Umfangsmikill eldur kviknaði í Kirovske á Krímskaga í nótt og hafa rúmlega 2.200 manns þurft að flýja heimili sín vegna hans. Eldurinn kviknaði eftir árás Úkraínumanna á þjálfunarbúðir Rússa en Úkraínumenn eru sagðir hafa hæft vopnageymslu. Mikill reykur hefur borist frá svæðinu og fleiri sprengingar hafa heyrst eftir að eldurinn kviknaði.


Tengdar fréttir

Kuleba segir einu lausnina að vinna fullnaðarsigur á Rússum

Rússar gerðu öflugar eldflauga og dróna árásir á Odessa, helstu útflutningshöfn Úkraínu, í nótt nokkrum klukkustundum eftir að þeir sögðu sig frá samkomulagi um útflutning á korni og áburði frá Úkraínu um Svartahaf. Utanríkisráðherra Úkraínu segir einu langtímalausnina vera að vinna fullnaðarsigur á Rússum.

Beindu stýriflaugum og drónum að Odessa

Rússar skutu stýriflaugum og flugu sjálfsprengidrónum að höfninni í Odessa við Svartahaf í nótt. Árásin er sögð hafa valdið skemmdum á innviðum í höfninni, sem er mikilvæg fyrir kornútflutning Úkraínumanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×