Íslenski boltinn

Aftur­elding á­fram tap­laust | Leiknir kom til baka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Topplið Aftureldingar stefnir hraðbyr á Bestu deildina.
Topplið Aftureldingar stefnir hraðbyr á Bestu deildina. Afturelding

Fimm leikir fóru fram í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld. Topplið Aftureldingar vann 1-0 sigur á Þrótti Reykjavík. Þá kom Leiknir Reykjavík til baka gegn Ægi frá Þorlákshöfn.

Aron Elí Sævarsson tryggði toppliði Aftureldingar 1-0 sigurinn á Þrótti Reykjavík með marki þegar tæp klukkustund var liðin. Afturelding er sem fyrr á toppnum, nú með 29 stig að loknum 11 leikjum. Þróttur er í 7. sæti með 13 stig eftir jafn marga leiki.

Í Breiðholti kom Sindri Björnsson Leikni yfir gegn nýliðum Ægis en gestirnir svöruðu með tveimur mörkum í fyrri hálfleik. Dimitrije Cokic jafnaði metin og Ivo Braz kom Ægi yfir með marki úr vítaspyrnu. Þegar fimm mínútur lifðu leiks jafnaði Omar Sowe metin fyrir heimamenn. 

Það var svo í uppbótatíma sem Baldvin Freyr Berndsen varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og tryggja þar með Leikni sigurinn. Leiknir er nú með 11 stig í 9. sæti á meðan Ægir er í botnsætinu með 4 stig.

Grindavík og Þór Akureyri gerðu 1-1 jafntefli suður með sjó. Marc Rochester Sörensen kom Þór yfir eftir rúma klukkustund en Marko Vardic jafnaði fyrir heimamenn undir lokin og þar við sat, lokatölur 1-1. Grindavík er í 4. sæti með 15 stig en Þór Ak. er í 5. sæti með 14 stig.

Í Njarðvík mættust heimamenn og Fjölnir. Undir lok fyrri hálfleiks kom Bjarni Gunnarsson gestunum í Fjölni yfir þegar hann fylgdi eftir eigin vítaspyrnu sem Walid Birrou Essafi varði út í teiginn. Bjarni fékk svo beint rautt spjald örskömmu síðar og Fjölnir marki yfir en manni færri í hálfleik.

Hreggviður Hermannsson jafnaði metin fyrir heimamenn þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Hreggviður ákvað að feta í spor Bjarna og lét henda sér af velli þegar hann nældi í sitt annað gula spjald á 64. mínútu. Fleiri mörk voru ekki skoruð og lauk leiknum með 1-1 jafntefli. Fjölnir er í 2. sæti með 22 stig en Njarðvík í 11. sæti með 8 stig.

Markaskorarar fengnir af Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×