Veður

Hollenskir túr­istar gapandi hissa á snjó­komu í júlí

Máni Snær Þorláksson skrifar
Erla Sigurlaug notaði hveragufuna til að hlýja sér á puttunum. Hún segir túristana í hópnum hafa verið hissa á veðrinu.
Erla Sigurlaug notaði hveragufuna til að hlýja sér á puttunum. Hún segir túristana í hópnum hafa verið hissa á veðrinu. Eric de Poiter

Túristar á Norðurlandi voru heldur betur hissa þegar það byrjaði að snjóa á þau í dag. Leiðsögumaður sem er í hringferð með túristana segir að þeir hafi verið kátir þrátt fyrir að þeir hafi þurft að klæða sig í öll fötin sín.

„Það var brjálað, það var bara snjór og hvítt,“ segir Erla Sigurlaug Sigurðardóttir, leiðsögumaður sem starfar fyrir hollenska ferðaþjónustufyrirtækið Sawadee, í samtali við fréttastofu.

Erla er í tólf daga hringferð með Hollendingum og eru þau þessa stundina stödd á Norðurlandi. Þar voru þau að skoða jarðhitasvæðin við Víti þegar þau lentu í snjókomu. „Aumingja túristarnir okkar voru bara gapandi hissa,“ segir Erla. 

Klippa: Snjókoma í júlí

„Enginn bjóst við þessu, þau eru bara í öllum fötunum sínum og samt að krókna. Fjöllin voru bara hvít en þetta var áhugavert, að vera á jarðhitasvæði í jólasnjó í júlí.“

Erla segir að fólkið hafi auðvitað verið rosalega hissa. Hún hafi þó verið búin að sýna þeim veðurspána. „Ég var ekki alveg að trúa því að þetta myndi ganga eftir,“ segir hún. 

„Ég sem Íslendingur er gapandi hissa.“

Enginn pirringur í hópnum

Þegar komið var að Víti var allt hvítt í fjöllunum þar í kring. Erla segir að túristarnir hafi ekki viljað eyða miklum tíma þar. „Þau rétt stukku út úr rútunni, kíktu og fóru aftur inn og sögðu: „Nei þetta er ekki hægt.“ Það var líka snjór og hávaðarok, ískalt. Það voru bara núll gráður.“

Erla segir að túristarnir viti af góða veðrinu fyrir sunnan og að þau skilji ekki hvað sé í gangi. Það sé þó enginn pirringur í því. „Það eru allir kátir, það er enginn sem hefði búist við þessu og ekki ég heldur,“ segir hún.

Hér má sjá snjókomuna og snævi þakin fjöllin í bakgrunni.Erla Sigurlaug

„Þau eru svo glöð með allt. En auðvitað allir í sjokki yfir deginum í dag og það var ekki mikið skoðað.“

Erla segist ekki hafa upplifað svona lagað á þessum tíma árs áður. „Í fyrra var ég sjálf hérna í júlí í stuttbuxum á fjallahjólinu að leika mér á sama svæði.“

Túristarnir voru kátir þrátt fyrir veðrið.Erla Sigurlaug


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×