Íslenski boltinn

Besta upp­hitunin: „Nóg af leikjum eftir og það geta allir tekið stig af öllum“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Katla og Birta verða mótherjar í stórleik 9. umferð Bestu deildar kvenna.
Katla og Birta verða mótherjar í stórleik 9. umferð Bestu deildar kvenna. Stöð 2 Sport

Birta Georgsdóttir, leikmaður Breiðabliks, og Katla Tryggvadóttir, leikmaður Þróttar Reykjavíkur, voru gestir Helenu Ólafsdóttur í upphitun fyrir 9. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu.

Breiðablik og Þróttur R. mætast á Kópavogsvelli í stórleik 9. umferðar en stutt er síðan liðin mættust í Mjólkurbikarnum. Þar höfðu Blikar betur og Þróttarar því í hefndarhug.

„Við undirbúum okkur yfirleitt alveg eins fyrir leikina. Svipað uppsett en Nik [Chamberlain, þjálfari Þróttar] er búinn að klippa síðasta leik og við förum yfir þær [klippurnar],“ sagði Katla aðspurð hvort undirbúningur Þróttar væri öðruvísi nú en fyrir bikarleikinn.

„Alveg eitthvað, held að þau séu að reyna fara ekki of mikið í þetta. Við reynum að spila okkar leik en það er eitthvað búið að fara yfir hvað má gera betur frá síðasta leik,“ sagði Birta um undirbúning Blika og hvort það væri mikil klippivinna þar á bakvið.

Klippa: Hitað upp fyrir 9. umferð Bestu deildar kvenna

Þróttur R. er í 3. sæti með 13 stig að loknum 8 umferðum, sex stigum minna en topplið Vals. Er Katla sátt?

„Fyrir mitt leyti, nei. Finnst við eiga að vera með fleiri stig en svo er þessi deild svo jöfn. Það eru allir að taka stig af öllum. Við höldum bara áfram.“

Breiðablik er sæti ofar með 16 stig, þremur stigum á eftir toppliðinu. Er Birta sátt með stöðu Breiðabliks?

„Ég myndi segja að það hafi verið stígandi í okkar leik. Finnst ryðminn í liðinu verða betri og betri með hverjum leiknum. Eins og Katla sagði áðan, það er nóg af leikjum eftir og það geta allir tekið stig af öllum. Það er bara halda áfram, taka einn leik í einu og klára hann,“ sagði Birta en spjall þeirra tveggja og Helenu má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan. Hér að neðan má sjá 9. umferð Bestu deildar kvenna.

9. umferð

  • 17.30 FH - ÍBV [Stöð 2 Sport 5]
  • 18.00 Selfoss - Stjarnan [Besta deildin]
  • 19.15 Breiðablik - Þróttur R. [Stöð 2 Sport]
  • 19.15 Keflavík - Valur [Besta deildin]
  • 20.00 Þór/KA - Tindastóll [Stöð 2 Sport 5]



Fleiri fréttir

Sjá meira


×