Erlent

Rússar skutu eldflaugum á Kherson í dag

Heimir Már Pétursson skrifar
Miklar skemmdir urðu á skrifstofubyggingu í Kherson í eldflaugaárás Rússa í dag.
Miklar skemmdir urðu á skrifstofubyggingu í Kherson í eldflaugaárás Rússa í dag. AP/Evgeniy Maloletka

Rússar héldu áfram loftárásum á borgir í suðurhluta Úkraínu í dag. Flugskeyti hæfðu skrifstofubyggingu miðborg Kherson sem Rússar höfðu hertekið en var stökkt á flótta þaðan í nóvember.

Í gær gerðu Rússar loftárásir á nágranna borgirnar Odessa og Mykolaiv. Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu hvetur öll ríki og fyrirtæki til að hætta að útvega Rússum íhluti í eldflaugar.

„Vitað er að tiltekin ríki hafa séð Rússum fyrir tugum íhluta í þessar Kalibr-flaugar. Vissulega stuðlar afhending slíkra birgða að aukinni hryðjuverkaógn. Þjóðir heims búa yfir aðferðum til að skera á allar þær birgðaleiðir sem liggja frá umræddum ríkjum og öllum fyrirtækjum sem senda slíka íhluti til rússneskra eldflaugaframleiðenda,“ sagði Zelensky í daglegu kvöldávarpi sínu í gærkveldi.

Og það eru ekki bara Íslendingar sem eru í aðgerðum gegn rússneskum sendiráðum. Ástralska þingið afgreiddi í dag með hraði lög sem banna Rússum að reisa nýtt sendiráð í næsta nágrenni við þinghús landsins eftir að alríkisdómstóll komast að þeirri niðurstöðu í síðasta mánuði að stjórnvöld gætu ekki afturkallað leyfi til byggingarinnar.

Anthony Albanese segir þetta gert til að tryggja öryggi landsins.

„Ríkisstjórnin fékk mjög skýrar öryggisráðleggingar um áhættuna sem stafar af viðveru Rússa svo nálægt þinghúsinu. Við bregðumst hratt við til að tryggja að leigulóðin verði ekki formlet diplómatískt svæði. Ríkisstjórnin fordæmir ólöglega og siðlausa innrás Rússa í Úkraínu,“ sagði Albanese í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×