Veður

Hiti að sau­tján stigum suð­vestan­lands og 24 stigum norð­austan­til

Atli Ísleifsson skrifar
Óljóst er hvort birti til á höfuðborgarsvæðinu seinnipartinn en þá gæti hiti farið upp í sautján stig.
Óljóst er hvort birti til á höfuðborgarsvæðinu seinnipartinn en þá gæti hiti farið upp í sautján stig. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir suðlægri átt í dag, víða þremur til átta metrum á sekúndu en heldur hvassara á norðanverðu Snæfellsnesi og á Ströndum.

Skýjað verður að mestu um sunnanvert landið og sums staðar dálítil væta. Það verður bjart með köflum fyrir norðan en líkur á stöku síðdegisskúrum.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að hiti verði á bilinu tíu til 24 stig, svalast við sjóinn sunnan- og vestantil, en hlýjast norðaustantil. Óljóst sé hvort birti til á höfuðborgarsvæðinu seinnipartinn en þá gæti hiti farið upp í sautján stig.

„Á morgun verður vestlæg átt og skýjað með dálítilli vætu um landið vestanvert. Bjart að mestu austanlands en eins og í dag líkur á stöku síðdegisskúrum. Áfram hlýtt í veðri, einkum eystra.

Á lýðveldisdaginn er útlit fyrir suðvestlæga átt. Skýjað, lítilsháttar væta og frekar svalt vestanlands og við suðurströndina en bjartviðri og hlýtt norðaustanlands,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Suðlæg átt 3-8 m/s. Skýjað um vestanvert landið og lítilsháttar væta. Víða bjartviðri austantil, en líkur á síðdegisskúrum inn til landsins og þokusúld við sjávarsíðuna. Hiti 10 til 22 stig yfir daginn, hlýjast Austanlands en svalast í þokulofti.

Á laugardag (lýðveldisdagurinn): Suðvestlæg átt 3-8 og dálítil rigning um vestanvert landið en bjart að mestu austantil en sums staðar þokusúld við ströndina. Hiti 10 til 25 stig yfir daginn, hlýjast inn til landsins á Austurlandi.

Á sunnudag: Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og væta með köflum. Hiti 8 til 20 stig, svalast við norður- og vesturströndina, en hlýjast í innsveitum austanlands.

Á mánudag: Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Víða rigning um austanvert landið en skýjað með köflum og lengst af þurrt vestantil, styttir upp um kvöldið. Hiti 8 til 18 stig, svalast við norðurströndina, en hlýjast í uppsveitum sunnanlands.

Á þriðjudag og miðvikudag (sumarsólstöður): Austlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og þurrt, en líkur á síðdegisskúrum. Hiti víða 8 til 13 stig yfir daginn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×