Erlent

Á­kæran sé ein versta vald­níðslan í sögu landsins

Árni Sæberg skrifar
Trump var harðorður þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í kvöld.
Trump var harðorður þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í kvöld. Anna Moneymaker/Getty

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, segir ákæru á hendur sér vegna þess að hann hélt opinberum gögnum með ólöglegum hætti og hindraði framgang réttvísinnar, munu fara í sögubækurnar sem ein versta valdníðslan í sögu Bandaríkjanna. 

Þetta kom fram í ræðu Trumps á ráðstefnu Repúblikana í Kólumbus í Georgíu í kvöld. Um var að ræða fyrsta skiptið sem Trump kom fram opinberlega eftir að ákæran var birt.

Í ræðunni sagði Trump að Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði fyrirskipað að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna gæfi út ákæru á hendur honum til þess að grafa undan framboði hans til Bandaríkjaforseta. Trump vonast nú til þess að hreppa tilnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar sem verða á næsta ári.

„Þessi fáránlega og tilhæfulausa ákæra á hendur mér frá vopnvæddu dómsmálaráðuneyti stjórnar Bidens verður skráð í sögubækurnar sem ein hræðilegasta valdníðslan í sögu lands okkar. Þessi grimma ákæra eru svik við réttlætið,“ sagði Trump.

Í frétt Reuters um málið segir að engar haldbærar sannanir séu fyrir fullyrðingum Trumps. Dómsmálaráðuneytið hafi gefið út að það starfi án þess að taka tillit til þess hvaða stjórnmálaflokkum fólk tilheyrir og Biden hafi sagst ekki munu skipta sér af rannsókn á málum Trumps.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×