Þetta kom fram í ræðu Trumps á ráðstefnu Repúblikana í Kólumbus í Georgíu í kvöld. Um var að ræða fyrsta skiptið sem Trump kom fram opinberlega eftir að ákæran var birt.
Í ræðunni sagði Trump að Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði fyrirskipað að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna gæfi út ákæru á hendur honum til þess að grafa undan framboði hans til Bandaríkjaforseta. Trump vonast nú til þess að hreppa tilnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar sem verða á næsta ári.
„Þessi fáránlega og tilhæfulausa ákæra á hendur mér frá vopnvæddu dómsmálaráðuneyti stjórnar Bidens verður skráð í sögubækurnar sem ein hræðilegasta valdníðslan í sögu lands okkar. Þessi grimma ákæra eru svik við réttlætið,“ sagði Trump.
Í frétt Reuters um málið segir að engar haldbærar sannanir séu fyrir fullyrðingum Trumps. Dómsmálaráðuneytið hafi gefið út að það starfi án þess að taka tillit til þess hvaða stjórnmálaflokkum fólk tilheyrir og Biden hafi sagst ekki munu skipta sér af rannsókn á málum Trumps.