Íslenski boltinn

„Vorum góðir í þrjár mínútur“

Dagur Lárusson skrifar
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. Vísir/Hulda Margrét

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var ekkert að skafa af hlutunum eftir að lið hans gerði 1-1 jafntefli gegn ÍBV á heimavelli í Bestu deild karla í fótbolta fyrr í dag.

„Við vorum bara lélegir hreint út sagt. Við vorum góðir í þrjár mínútur en annars voru þeir mikið betri,“ byrjaði Rúnar að segja.

„Við áttum bara ekkert meira skilið út úr þessum leik og vorum heppnir að fá þetta eina stig,“ hélt Rúnar áfram að segja.

Rúnar talaði um meiðsli og þreytu í hópnum fyrir leik og vildi hann meina að það hafi verið augljóst í þessum leik.

„Já maður sér klárlega þyngsli í liðinu. Það er búið að vera mikið álag í langan tíma og síðan lendum við í þessari framlengingu síðast sem situr ennþá svolítið í liðinu. Kannski hefði ég átt að gera fleiri breytingar en ég gerði en við komumst einhvern veginn aldrei í takt og völlurinn býður kannski ekki mikið upp á það.“

,,Það er oft gott þegar það er mikil þreyta í liðinu að halda boltanum og hvíla sig þannig en það var ekki þannig í dag því hvernig ÍBV spilar þá fara þeir langt snemma og hratt og þá verða þetta mikil hlaup fram og til baka og við bara réðum ekkert við þá í flestum einvígum,“ endaði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, að segja eftir leik


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×