Íslenski boltinn

Margrét Lára segir pressu FH vera unaðslega

Jón Már Ferro skrifar
Kvennalið FH leggur mikið upp úr því að pressa andstæðinginn hátt á vellinum.
Kvennalið FH leggur mikið upp úr því að pressa andstæðinginn hátt á vellinum. Vísir/Hulda Margrét

Þrátt fyrir að vera nýliði í Bestu deild kvenna þá er FH óhrætt við að pressa mjög hátt á móti andstæðingum sínum.

„Það verður að hrósa FH. Þær voru gríðarlega vel undirbúnar og pressan þeirra í fyrri hálfleik var unaðsleg,“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir, einn sérfræðinga Bestu markanna.

Þegar Margrét talar þá er best að hlusta enda er hún markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi með 79 mörk. Einnig skoraði hún yfir 200 mörk í efstu deild á Íslandi og tæplega 400 mörk í öllum keppnum.

Ekki er verra þegar Helena Ólafsdóttir tjáir sig um fótbolta enda gríðarlega farsæl á sínum tíma með yfir hundrað mörk í efstu deild á Íslandi. Hún tók undir orð Margrétar.

Klippa: Pressa FH-inga gegn Selfoss

„Þær eru að leysa þetta virkilega vel og þetta er greinilega vel æft.  Þær spiluði mikið svona í fyrra. Þær eru ekkert að finna upp hjólið á þessu ári,“ segir Helena Ólafsdóttir, þáttastjórnandi.

Bræðurnir Guðni og Hlynur Eiríkssynir leggja mikið upp úr því að leikmenn sínir vinni boltann ofarlega á vellinum til að vera sem næst markinu þegar sóknin byrjar.

„Þetta var einmitt svo vel lesið hjá þjálfarateyminu, Guðna og Hlyn. Þær eru að mæta svolítið særðu liði Selfoss og þær keyrðu bara yfir þær. Sérstaklega í fyrri hálfleiknum,“ segir Margrét Lára.

Elísa Lana Sigurjónsdóttir, Shaina Faiena og Esther Rós Arnarsdóttir voru frábærar inni á miðjunni fyrir FH. Valgerður Ósk Valsdóttir var öftust á miðjunni og stýrði þeim fyrrnefndu í pressunni.

„Elísa Lana var gríðarlega öflug. Það sem hún hljóp og djöflaðist. Shaina og Esther. Þær koma á svo miklum ákafa,“ segir Margrét Lára að endingu.

Næsta umferð Bestu deildar kvenna hefst á mánudag með Þórs/KA gegn Selfossi. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 sport. Áttunda umferðin klárast svo á þriðjudaginn með fjórum leikjum. Að þeim loknum verða Bestu mörkin á sínum stað.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.