Erlent

Auð­jöfur sektaður um á­tján milljónir fyrir hrað­akstur

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Maríuhöfn á Álandseyjum. Eyjarnar tilheyra Finnlandi en hafa sjálfsstjórn í ýmsum málefnum. Meirihluti íbúa þar er sænskumælandi.
Frá Maríuhöfn á Álandseyjum. Eyjarnar tilheyra Finnlandi en hafa sjálfsstjórn í ýmsum málefnum. Meirihluti íbúa þar er sænskumælandi. Getty

Auðugasti íbúi Álandseyja var sektaður um meira en 120.000 evrur, jafnvirði um 18,3 milljóna íslenskra króna, fyrir að aka of hratt um helgina. Hraðasektir eru tekjutengdar í Finnlandi og segist auðmaðurinn vonast til þess að sektin nýtist til að bæta heilbrigðisþjónustu. 

Anders Wiklöf, umsvifamikill athafnamaður, var gripinn glóðvolgur á 82 kílómetra hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði var fimmtíu kílómetrar á klukkustund nærri Maríuhöfn á Álandseyjum á laugardag. Hann segir staðarblaðinu Nya Åland að hann hafi verið byrjaður að hægja á sér þar sem hámarkshraði lækkaði úr sjötíu í fimmtíu en greinilega ekki nógu mikið þannig að svo fór sem fór.

„Ég harma þetta virkilega og ég vona að peningarnir verði notaðir í heilbrigðisþjónustu í gegnum ríkissjóð,“ sagði Wiklöf sem missti einnig ökuskírteini sitt í tíu daga.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Wiklöf kemst í fréttirnar fyrir háar umferðarsektir. Hann var sektaður um 63.680 evrur, rúmar 9,6 milljónir króna, fyrir hraðakstur árið 2018 og 95.000 evrur, jafnvirði tæpra 14,4 milljóna króna, fimm árum áður.

Þýski fjölmiðillinn Deutsche Welle segir að Wiklöf sér stjórnarformaður eignarhaldsfélag sem heldur meðal annars utan um þyrluþjónustu, fasteignafyrirtæki og fleiri fyrirtæki. Hann sé stundum nefndur „kóngur“ Álandseyja.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.