Í afkomuviðvörun Viaplay segir að veitan búist við tapi upp á 250 til 300 milljón sænskra króna á öðrum ársfjórðungi. Það er allt að tapið nemi 3,9 milljörðum króna. Þá er gert ráð fyrir að söluaukning nemi 16 til 17,5 prósentum í stað 24 til 26 prósenta aukningar eins og í fyrri spá.
Féllu hlutabréf í veitunni um 58,6 prósent, niður í 93,4 sænska krónu á hlut.
Þá var forstjórinn Anders Jensen rekinn og Jörgen Madsen Lindemann, fyrrverandi forstjóri rafíþróttadeildar MTG, tekur við. En Viaplay er dótturfyrirtæki MTG.
Samkvæmt Viaplay er ástæða þrenginganna yfirstandandi lífskjarakreppa og harðnandi viðskiptaumhverfi. Hafi eftirspurn eftir bæði norrænu og alþjóðlegu afþreyingarefni minnkað sem og áskriftasala. Þá hafi norrænir auglýsingamarkaðir fyrir ljósvakamiðla dalað hratt.
Kom á óvart
Viðvörun Viaplay kom mörgum á óvart enda í ósamræmi við tilkynningu félagsins frá 25. apríl síðastliðnum. Þar sagði að árið hefði byrjað eins og spár hefðu gert ráð fyrir. Mikill meðbyr væri með veitunni þrátt fyrir óvissu í efnahagsmálunum heimsins.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Viaplay gefur út afkomuviðvörun, síðast var það gert í fyrra. Samkvæmt fréttastofunni Reuters komu þær tölur sem kynntar voru í dag fólki þó á óvart.
Sænsk veita í 33 löndum
Viaplay var stofnuð í Svíþjóð árið 2007. Veitan er nú með dreifingu á Norðurlöndum, Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Eystrasalti, Póllandi og víðar, alls 33 löndum.
Fjölmargir Íslendingar eru áskrifendur að þjónustu Viaplay. Þar er hægt að streyma kvikmyndum og þáttaröðum, bæði norrænum og öðrum. Einnig er mikið af íþróttaefni á veitunni, svo sem þýski fótboltinn, Formúla 1 kappakstur og NHL íshokkídeildin.