Umfjöllun og viðtöl: KR - Stjarnan 1-0 | KR-ingar nálgast efri hlutann

Hjörvar Ólafsson skrifar
KR-ingar eru enn á sigurbraut eftir sigur gegn Stjörnunni í kvöld. 
KR-ingar eru enn á sigurbraut eftir sigur gegn Stjörnunni í kvöld.  Vísir/Anton

KR hafði betur í öðrum deildarleiknum sínum í röð og þriðja leiknum alls er liðið tók á móti Stjörnunni í níundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Meistaravöllum í Vesturbænum í kvöld. Lokatölur 1-0 og KR-ingar eru nú aðeins einu stigi frá efri hluta deildarinnar.

Liðin skiptust á að hafa yfirhöndina í fyrri hálfleik en Atli Sigurjónsson fékk besta færi KR-liðsins í fyrri hálfleiknum. Atli fékk þá boltann í góðri stöðu eftir misheppnaða sendingu hjá Árna Snæ Ólafssyni. Skot Atla fór hins vegar bæði yfir og framhjá.

Daníel Laxdal komst hins vegar næst því að brjóta ísinn fyrir Stjörnuna. Færið kom eftir eina af mörgum hættulegum spyrnum frá Hilmari Árna Halldórssyni úr föstu leikatriði. Jakob Franz Pálsson kom aftur á móti í veg fyrir að gestirnir úr Garðabænum næðu forystunni.

Aron Þórður Albertsson leysti Olav Öby af hólmi inni á miðsvæðinu í hálfleik og Aron Þórður kom af krafti inn í leikinn. Strax í upphafi seinni hálfleiks fékk hann skotfæri við vítateigslínuna eftir gott spil KR-liðsins en Árni Snær var vandanum vaxinn. 

Finnur Tómas Pálmason fékk svo kjörið tækifæri til þess að skora um miðbik seinni hálfleiks þegar Jóhannes Kristinn Bjarnason sendi boltann á miðvörðinn. Árni Snær sá við Finni Tómasi og leikurinn því enn markalaus.

Þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum skoraði Ægir Jarl Jónasson svo sigurmark leiksins. Ægir Jarl skallaði þá hnitmiðaða hornspyrnu Jóhannes Kristins laglega í netið og tryggði Vesturbæjarliðinu stigin þrjú.

Skömmu síðar fékk KR tækifæri til þess að tvölfalda forskot sitt en þá sköpuðu varamennirnir Benóný Breki Andrésson og Sigurður Bjartur Hallsson gott færi fyrir þann síðarnefnda. Árni Snær varði skot Sigurðar Bjarts vel. 

KR hefur 10 stig eftir þennan sigur og hífði sig upp í áttunda sæti deildarinnar. Stjarnan er í tíunda sæti með sjö stig og er einu stigi fyrir ofan fallsvæðið.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var sáttur að leik loknum. Vísir/Anton

Rúnar: Mikilvægt að ná að halda hreinu

„Það er rosalega sætt að ná að landa þessum sigri sem ég get þó ekki sagt að hafi endilega verið sanngjarn. Þetta var frekar lokaður leikur og fá færi sem litu dagsins ljós. Við fengum kannski aðeins fleiri færi en þetta var ekki áferðafallegasti leikur sem ég hef séð,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR

„Það er mikilvægt að ná að halda hreinu og halda áfram að safna stigum til þess klífa upp töfluna. Við erum hins vegar ennþá á slæmum stað og þurfum að halda áfram að bæta okkar leik. Ég var ánægður með Aron Snæ í þessum leik og við vorum þéttir varnarlega sem er jákvætt,“ sagði Rúnar enn fremur.

Jökull: Margt sem þarf að bæta fyrir bikarleikinn

„Þetta var jafn leikur þar sem jafntefli hefði kannski verið sanngjarnari niðurstaða. Mér fannst leikmenn díla ágætlega við aðstæður og völlurinn var betri en ég hélt. Þetta var mikill barningur og við þurfum að bæta ýmislegt fyrir bikarleikinn við þá sem er handan við hornið,“ sagði Jökull I. Elísabetarson, þjálfari Stjörnuliðsins

„Við fengum svo sem alveg færi til þess að komast yfir og heilt yfir var frammistaðan bara fín. Við þurfum þó að greina þennan leik fyrir næsta bardaga okkar við þá. Það má búast við svipuðum leik þar og við verðum að gera betur þegar þar að kemur,“ sagði Jökull þar að auki.

Jökull I. Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, segir margt sem þurfi að laga fyrir næsta bardaga við KR.Vísir/Hulda Margrét

Af hverju vann KR?

Í fremur lokuðum leik var það mark eftir fast leikatriði sem skildi liðin að. Liðin skiptust á að vera ofan á og fengu álíka mörg færi til þess að tryggja sér sigurinn. Jafnræði var með liðunum en Ægir Jarl sá til þess að KR-ingar gengu sáttir af velli.

Hverjir sköruðu fram úr?

Jóhannes Kristinn var öflugur í hægri vængbakverðinum og kórónaði góða frammistöðu sína með því að leggja upp sigurmarkið. Kennie Chopart var svo sterkur á báðum endum vallarins. Jakob Franz Pálsson var svo fastur fyrir í hjarta varnarinnar. Theódór Elmar Bjarnason var síðan mikið í boltanum þann klukkutíma sem hann spilaði.

Hjá Stjörnumönnum átti Árni Snær góðan leik, Daníel Laxdal var solid og Eggert Aron Guðmundsson var flottur inni á miðsvæðinu.

Hvað gekk illa?

Eftir að KR komst yfir náði Stjarnan ekki að setja nógu mikla pressu á KR-liðið og skapa sér hættuleg færi til þess að jafna metin. Emil Atlason var svo oft hársbreidd frá því að koma sér í góð færi en náði þá ekki að halda sér réttu megin við línuna og var flaggaður rangstæður.

Hvað gerist næst?

KR sækir Fylki heim í Árbæinn í næstu umferð deildarinnar á fimmtudaginn kemur. Stjörnumenn fá hins vegar KA í heimsókn á Samsung-völlinn á föstudaginn í næstu viku.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.