Margrét Lára Viðarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir eru báðar í hópi markahæstu leikmönnum í sögu efstu deildar kvenna sem og Helena Ólafsdóttir, umsjónarkona Bestu markanna.
Saman skoruðu þær 542 mörk í efstu deild, Margrét Lára 207 (2. sæti), Harpa 181 mark (3. sæti) og Helena 154 mörk (5. sæti).
Umræðan í nýjustu Bestu mörkunum var meðal annars um hvað þær markahæstu væru búnar að skora fá mörk eftir fimm leiki. Helena sýndi markahæstu leikmenn í öllum liðunum og að markaskorið hefur dreifst mikið á leikmenn hjá liðunum.

Margrét Lára segir að sama þróun sé í gangi og í fyrra þegar markahæstu leikmenn voru ekki að skora eins mikið og við þekktum áður fyrr.
„Ég sem gamall sóknarmaður viðurkenni það alveg að ég sakna þess. Við elskum að sjá markaskorara og við elskum að sjá gráðuga leikmenn sem vilja skora mörk og eru að skora mikið af mörkum. Ég persónulega sakna þess mjög mikið,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir.
„Ég skora á framherjana í þessari deild að fara aðeins að vera svolítið gráðugri og fari að skora fleiri mörk fyrir okkur,“ sagði Margrét Lára.
Helena Ólafsdóttir spurði þá Hörpu Þorsteinsdóttur hvort deildin væri að breytast.
„Ég held nú að leikurinn sé ekki að breytast en ég tek undir það með Margréti að ég sakna þess líka að sjá ekki þessa eðalmarkaskorara sem eru að skora í hverjum leik,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir.
„Við ræddum það líka í fyrra að maður hefur áhyggjur af því að þegar toppliðunum skortir þessa markaskorara þá verður þetta ekki jafn afgerandi,“ sagði Harpa.
Það má sjá umræðu þeirra um markaskorara í Bestu deild kvenna í sumar hér fyrir neðan.