Íslenski boltinn

Hulda Ósk: Á­kvað að dúndra á markið

Árni Gísli Magnússon skrifar
Hulda Ósk skoraði fyrra mark Þórs/KA í kvöld.
Hulda Ósk skoraði fyrra mark Þórs/KA í kvöld. Vísir/Vilhelm

Þór/KA vann 2-0 sigur á Breiðablik í Boganum á Akureyri í kvöld í 4. umferð Bestu deildar kvenna.  Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði fyrra mark leiksins og átti góðan leik á hægri vængnum.

„Hún er frábær. Við vorum geggjaðar í dag og fórnuðum okkur í þetta þannig hún er góð”, sagði Hulda strax eftir leik aðspurð hvernig tilfinningin væri.

Hulda skoraði frábært mark í fyrri hálfleik þegar hún fékk sendingu inn fyrir frá Söndu Maríu Jessen.

„Ég fékk hann í gegn frá Söndru, geggjaður bolti, og ég ætlaði örugglega að hlaupa með hann inn í markið en ég ákvað að dúndra á markið þannig það virkaði þetta skiptið.”

Þór/KA liðið var gríðarlega skipulagt í dag og allir leikmenn með sín hlutverk á hreinu. Fór mikill undirbúningur í leikinn?

„Já, bara eins og alltaf, við undirbúum okkur alltaf mjög vel fyrir leiki og það var ekkert öðruvísi í dag.”

Jóhann Kristinn Gunnarsson tók við liðinu fyrir tímabilið og virðist annar bragur vera á liðinu í ár frá því í fyrra.

„Það er bara eitthvað boost sem við fáum frá honum, það er ekkert eitthvað öðruvísi eða eitthvað svoleiðis, við erum árinu eldri og skipulagðari.”

Sandra María Jessen kláraði leikinn endanlega þegar hún kom Þór/KA í 2-0 í uppbótartíma og Hulda var mjög fegin að sjá boltann inni.

„Ég hefði viljað sjá hann inni svona 15 mínútum fyrr, þá hefði ég verið aðeins rólegri síðasta korterið en það var ótrúlega gott að róa okkur aðeins þarna þannig frábært að fá þetta mark.”

Hulda Ósk var lífleg á hægri vængnum í dag og nýtti oft tækifærið í að taka skærin og fleira gegn bakverði Blika.

„Mér finnst mjög gaman að taka skæri þannig að það var ekki leiðinlegt í dag”, sagði Hulda að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×