Íslenski boltinn

„Arnar Gunn­laugs­son talar oft mikið og Víkingur er grófasta liðið í deildinni“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimir Guðjónsson gaf ekki mikið fyrir ummæli Arnars Gunnlaugssonar.
Heimir Guðjónsson gaf ekki mikið fyrir ummæli Arnars Gunnlaugssonar. Vísir/Diego

Heimir Guðjónsson var ánægður með síðari hálfleik sinna manna eftir 2-0 tap FH gegn toppliði Víkings í Fossvogi. Heimir var hins vegar ekki parsáttur með ummæli Arnars Gunnlaugssonar, þjálfara Víkings, um að FH-ingar hafi komið út í síðari hálfleikinn til að meiða leikmenn Víkinga.

„Alltaf vonbrigði að tapa. Frábærir í seinni hálfleik, spiluðum virkilega vel og vantaði bara að skora eitt mark til að hleypa þessu aðeins upp. Náðum því ekki. Fyrri hálfleikur, sérstaklega byrjunin var ekki nógu góð. Bárum of mikla virðingu fyrir Víkingum og það kann ekki góðri lukku að stýra,“ sagði Heimir eftir leik.

Aðspurður út í ummæli Arnars sagði Heimir eftirfarandi:

„Arnar Gunnlaugsson talar oft mikið og Víkingur er grófasta liðið í deildinni. Þeir fara bara betur með það heldur en önnur lið.“

„Ég skil ekkert í honum að vera væla, þeir vældu á bekknum látlaust. Mér fannst við spila góðan fótbolta í seinni hálfleik. Pablo [Punyed] átti aldrei að klára þennan leik. Þannig að, eitt og annað sem féll ekki með okkur. Fannst líka Nikolaj [Hansen] setja hendurnar í marki númer tvö.“

Um frammistöðuna í síðari hálfleik

„Fótboltinn í seinni hálfleik hjá okkur var mjög góður, spiluðum boltanum vel, vorum með góðar færslur og sköpuðum okkur góð færi. Eins og ég segi, það vantaði svona að ná að klára þetta.“

„Næsti leikur í bikarnum á móti Njarðvík, erfiður leikur og við þurfum að vera klárir þá,“ sagði Heimir að endingu um framhaldið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×