Íslenski boltinn

Bronsliði Blika spáð titlinum en Keflavík spáð falli

Sindri Sverrisson skrifar
Valur og Stjarnan urðu í efstu tveimur sætunum í Bestu deildinni í fyrra en nú er komið að Breiðabliki, samkvæmt árlegri spá þjálfara, fyrirliða og formanna félaganna.
Valur og Stjarnan urðu í efstu tveimur sætunum í Bestu deildinni í fyrra en nú er komið að Breiðabliki, samkvæmt árlegri spá þjálfara, fyrirliða og formanna félaganna. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Breiðablik verður Íslandsmeistari og nýliðar FH halda sæti sínu í Bestu deild kvenna í fótbolta, samkvæmt spá þjálfara, fyrirliða og formanna félaganna tíu í deildinni.

Spáin var birt í dag á kynningarfundi fyrir Bestu deildina í höfuðstöðvum Sýnar á Suðurlandsbraut.

Afar mjótt var á munum varðandi líklegustu meistarakandídatana en Breiðablik hlaut 242 stig í efsta sæti og Stjarnan 238 stig í öðru sæti. Stjörnukonur náðu silfursætinu á síðustu leiktíð á kostnað Blika sem spila því ekki í Evrópukeppni í sumar. 

Íslandsmeisturum Vals er hins vegar aðeins spáð 3. sæti deildarinnar og fékk liðið ekki mikið fleiri atkvæði en næsta lið, Þróttur.

Nýliðum Tindastóls er spáð neðsta sætinu en Keflavík er spáð falli niður úr deildinni á meðan að FH, sem vann Lengjudeildina á síðasta ári, er spáð áframhaldandi veru í Bestu deildinni eftir tímabilið.

Spá Bestu deildar kvenna 2023

  • 1. Breiðablik 242
  • 2. Stjarnan 238
  • 3. Valur 216
  • 4. Þróttur 198
  • 5. Þór/KA 154
  • 6. Selfoss 145
  • 7. ÍBV 106
  • 8. FH 75
  • 9. Keflavík 60
  • 10. Tindastóll 51

Deildinni skipt upp eftir átján umferðir

Þegar hinni hefðbundnu deildakeppni lýkur, eftir 18 umferðir, verður deildinni skipt upp þannig að sex efstu liðin spila í efri hlutanum, eina umferð innbyrðis, og neðstu fjögur liðin leika eina umferð innbyrðis. Samkvæmt spánni verða það ÍBV, FH, Keflavík og Tindastóll sem berjast í neðri hlutanum og þar með um að forðast fall.

Keppni í Bestu deildinni hefst með þremur leikjum þriðjudaginn 25. apríl. Fyrsta umferðin klárast með tveimur leikjum daginn eftir. Á næstu dögum verða liðin í Bestu deildinni kynnt hvert á fætur öðru í árlegri spá Vísis fyrir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×