Umfjöllun, myndir og viðtöl: Valur - Breiða­blik 0-2 | Ís­lands­meistararnir komnir á blað

Sverrir Mar Smárason skrifar
Oliver Sigurjónsson fagnar sigri í leikslok.
Oliver Sigurjónsson fagnar sigri í leikslok. Vísir/ Hulda Margrét

Íslandsmeistarar Breiðabliks eru komnir á blað í Bestu deild karla í knattspyrnu eftir súrt tap gegn HK í 1. umferð. Meistararnir unnu góðan 2-0 útisigur á Val í kvöld og eru komnir á blað. 

Leikurinn fór rólega af stað þrátt fyrir mikla stöðubaráttu. Menn voru staðráðnir í því að gefa ekkert eftir í návígum og einkenndist byrjun leiksins af því. Það voru svo óvænt tíðindi á 7. Mínútu þegar Tryggvi Hrafn Haraldsson komst inn í sendingu frá Damir Muminovic aftur á Anton Ara. Tryggvi var á undan Antoni í boltann sem var kominn langt út fyrir teiginn og renndi sér fyrir. Valsmenn vildu frá dæmda hendi en Antoni tókst að fá boltann í mjöðmina áður en hann hreinsaði boltanum langt fram.

Tíu sekúndum síðar lá boltinn í netinu Valsmegin. Haukur Páll átti fyrsta skallann sem var laus, Anton Logi var fyrstur á boltann sem datt fyrir Gísla Eyjólfsson. Gísli átti frábæran sprett að teig Valsmanna og reyndi skot rétt fyrir utan teiginn. Skotið fór af Hauki Páli og yfir Frederik Schram í marki Vals og Íslandsmeistararnir komnir yfir.

Næstu 10-15 mínútur voru eign Blika sem sköpuðu sér nokkrar ágætis stöður en aldrei líklegir til þess að skora. Eftir það lifnaði yfir Valsmönnum og Blikar fóru að gera mistök aftast. Guðmundur Andri fékk mjög gott færi á 32. mínútu þegar hann komst inn í sendingu frá Antoni Ara og smellhitti skot af vítateigslínunni en af slánni og yfir.

Lítið gerðist það sem eftir var af fyrri hálfleiknum og hálfleikstölur 0-1 gestunum í vil.

Breiðablik hóf síðari hálfleikinn af meiri krafti en Valur. Blikar fengu tvö góð færi í upphafi síðari hálfleiks en hvorki Gísli Eyjólfs og Viktor Karl náðu að nýta sér þau.

Mikil stöðubarátta var í leiknum og aðstæður buðu ekki uppá mikla fegurð í kvöld. Anton Logi Lúðvíksson sem hafði að mati undirritaðs verið maður leiksins lenti illa á öxlinni eftir baráttu við Aron Jóhannsson og varð að fara af velli. Það leit þannig út að hann hefði farið úr axlarlið en við vonum það besta.

Valsmenn komust nokkrum sinnum inn í sendingar Blikar úr vörninni en náðu aldrei að gera sér almennilega mat úr þeim stöðum.

Viktor Karl fékk svo ansi gott færi á 82. mínútu eftir mikinn dugnað Stefáns Inga og mikið vesen á hafsentum Vals. Stefán lagði boltann út á Viktor sem hafði opið mark fyrir framan sig en hitti ekki á rammann.

Stefán Ingi fagnar marki sínu í uppbótartíma.

Smiðshöggið kom svo á 92. mínútu þegar varamenn Blika sameinuðu krafta sína. Ágúst Orri Þorsteinsson renndi boltanum þá snyrtilega í hlaupaleiðina fyrir Stefán Inga aftur fyrir vörn Valsmanna og Stefán þakkaði fyrir, potaði boltanum framhjá Frederik Schram og í netið. Sigur Breiðabliks því öruggur og Íslandsmeistararnir komnir á blað í Bestu deildinni árið 2023.

Af hverju vann Breiðablik?

Þeir voru mun hættulegri á síðasta þriðjungi en Valur. Vörn Blika tókst að halda sóknaraðgerðum Vals niðri mest allan leikinn og fengu þeir því fá færi á sig.

Blikar mættu fastir fyrir og unnu margar stöður einn á einn í leiknum. Á endanum var það líklega það sem skilaði sigri í dag í miklum baráttuleik.

Hverjir voru bestir?

Anton Logi Lúðvíksson var maður leiksins. Steig varla feilspor með boltann og fjöldann af sóknum Vals sem hann stoppaði missti ég mjög fljótlega. Frábær leikmaður og vonandi eru meiðslin minni en þau litu út fyrir að vera.

Gísli Eyjólfsson átti flottan leik sömuleiðis ásamt varnarlínu Blika fyrir utan nokkrar tæpar sendingar.

Valsmegin fannst mér Birkir Heimisson og Hlynur Freyr Karlsson standa uppúr. Öruggir á boltanum og traustir varnarlega.

Hvað mætti betur fara?

Valsmenn þurfa að tengja betur saman í sókninni ætli þeir sér að gera eitthvað í sumar. Adam Ægir, Guðmundur Andri, Tryggvi Hrafn og Aron Jóhannsson náðu engan vegin saman í dag og var Aron eini sem kláraði leikinn. Einu færi Vals voru eftir að hafa unnið boltann ofarlega á vellinum en úr uppbyggðri sókn gerðu þeir aldrei neitt.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Breiðablik fer í Grafarvoginn og mætir Fjölni á miðvikudaginn kl. 18:00 og Valsmenn fá RB í heimsókn sama dag kl. 19:15.

Óskar Hrafn: mér fannst frammistaðan ekki vera þannig að ég fari skælbrosandi á koddann í kvöld

Óskar Hrafn á hliðarlínunni.Vísir/Diego

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Blika, var ekki eins sáttur og margur myndi halda í leikslok.

„Bara ágætlega sáttur eða já bara svona la la. Ég talaði við þá fyrir leikinn að við værum lið sem horfir meira í frammistöðuna og höfum byggt á frammistöðukúltúr. Hún var ekki góð í dag. Sigurinn fínn. Úrslitin allt í lagi og góð bara. Það er erfitt að koma á þennan völl og vinna en mér fannst frammistaðan ekki vera þannig að ég fari skælbrosandi á koddann í kvöld. Mér finnst við eiga mjög mikið inni. Við þurfum að bæta okkur bæði varnarlega og sóknarlega og það í snatri,“ sagði Óskar Hrafn.

Þegar hann var spurður nánar út í frammistöðuna þá svaraði Óskar, „við héldum boltanum ekki nógu vel, vorum ragir. Mér fannst okkur skorta hugrekki og við þurfum að vera miklu hugrakkari en við vorum í dag. Halda boltanum, þora að gera mistök og þora að tapa boltanum, það er ekkert að því.“

Það bárust fréttir af því í hálfleik að byrjunarliði Breiðabliks hafi verið lekið til Vals fyrir leikinn. Óskar sagði það engu máli skipta.

„Ég hef ekki hugmynd um það. Þú ert að segja mér fréttir en það kemur ekkert á óvart, það lak líka í fyrsta leiknum. Þú sérð mig ekkert fara að tala um að það sér einhver að kjafta frá. Svona er fótboltinn orðinn. Við höfum oft fengið byrjunarlið andstæðinga okkar. Menn tala, menn hittast, menn eru alls staðar og menn eru hvergi. Þetta skiptir engu máli. Ég get sent Úlfi, þjálfara Fjölnis, byrjunarliðið á miðvikudaginn. Ef menn vilja segja frá byrjunarliðinu þá bara gera þeir það, það væri betra að halda því innanhúss,“ sagði Óskar Hrafn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira