Erlent

Seg­ir af­tök­u­mynd­band sýna hið raun­ver­u­leg­a Rúss­land

Samúel Karl Ólason skrifar
Selenskí segir að ódæði eins og þau sem umrætt myndband sýni muni aldrei gleymast.
Selenskí segir að ódæði eins og þau sem umrætt myndband sýni muni aldrei gleymast. Skjáskot og EPA

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að myndband sem sýnir rússneskan hermann skera höfuðið af úkraínskum hermanni í haldi Rússa, sé til marks um hvernig Rússland sé. Ódæðið muni aldrei gleymast og að Úkraínumenn þurfi aðstoð til að reka Rússa á brott.

„Það getur enginn litið hjá því hve auðveldlega þessar skepnur drepa,“ sagði Selenskí í ávarpi sem hann birti í morgun. Hann sagði heiminn þurfa að sjá að myndbandið sýndi hið raunverulega Rússland.

Umrætt myndband sýnir hvernig rússneskur hermaður hélt öskrandi úkraínskum hermanni niðri og skar af honum höfuðið á meðan annar stóð til hliðar, hvatti böðulinn áfram og tók ódæðið upp.

Útlit er fyrir að myndbandið hafi verið tekið upp síðasta sumar eða haust en það fór í dreifingu á netinu í Rússlandi í gær.

Selenskí sagði þetta alls ekkert einsdæmi. Rússar hefðu ítrekað sýnt hegðun sem þessa, eins og til dæmis í Bucha.

Sjá einnig: „Ég er búinn að drepa svo mikið af borgurum“

„Ekki búast við því að þetta muni gleymast. Við munum ekki gleyma neinu og við munum ekki heldur fyrirgefa morðingjunum,“ sagði forsetinn og bætti við að öll ódæði Rússa í Úkraínu myndu hafa afleiðingar og nauðsynlegt væri að sigra Rússa.

Til þess þyrftu Úkraínumenn aðstoð og kallaði hann eftir því.

„Markmiðið er að vinna,“ sagði hann.

Ekki í fyrsta sinn

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ódæði eins og þetta lítur dagsins ljós í Úkraínu. Síðasta sumar var myndefni af höfði og höndum úkraínsks hermanns á stjökum í Popasna í Úkraínu í dreifingu.

Það var um svipað leyti sem myndband af rússneskum hermönnum skera undan úkraínskum stríðsfanga með dúkahníf var í dreifingu. Myndbandið sýndi þrjá rússneska hermenn halda úkraínskum manni niðri, skera hann með dúkaníf og skjóta hann svo í höfuðið.

Þá héldu Rússar því fram að myndbandið hefði verið sviðsett til að koma óorði á rússneska hermenn. 

Rannsakendur Bellingcat gátu þó borið kennsl á manninn sem misþyrmdi og myrti úkraínska hermanninn á myndbandinu. Sá tilheyrir téténskri hersveit í rússneska hernum en frekari upplýsingar um hvernig hann var fundinn má finna á vef samtakanna.

Sjá einnig: Stjaksettu höfuð úkraínsks hermanns

Þá var í mars birt myndband sem tekið var upp af rússneskum hermanni sem sýndi ótilgreindan fjölda hermanna skjóta úkraínskan stríðsfanga til bana. Myndbandið sýndi úkraínskan hermann standa í grunnum skurði, reykjandi sígarettu. Maðurinn með myndavélina virtist vera að bakka frá honum þegar úkraínski hermaðurinn sagði: „Slava Ukraini“ eða „Lifi Úkraína“.

Við það var hann skotinn margsinnis af nokkrum rússneskum hermönnum og sagði einn þeirra eftir á: „Drepstu hundur“.

„Fáránlegt“ að Rússar stýri öryggisráðinu

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, hefur einnig tjáð sig um myndbandið nýja. Hann líkir Rússum við vígamenn Íslamska ríkisins sem birtu fjölmörg aftökumyndbönd sem þessi. Þar sem böðlar skáru höfuð af föngum eða myrtu þá með öðrum leiðum.

Kuleba segir fáránlegt að Rússland sé í forsæti öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

„Rússneskir hryðjuverkamenn verða að vera reknir frá Úkraínu og úr Sameinuðu þjóðunum og draga þarf þá til ábyrgðar fyrir glæpi þeirra.“

Varnarmálaráðuneyti Úkraínu líkir Rússum við nasista en segir stærsta muninn á þeim vera að nasistarnir hafi reynt að leyna ódæðum sínum.


Tengdar fréttir

Búið að greina mögu­legar af­leiðingar and­láta Pútín og Selenskí

Meðal þeirra skjala sem lekið var á netið í umfangsmiklum gagnaleka innan úr bandaríska stjórnkerfinu er greining sem unnin var af leyniþjónustu varnarmálaráðuneytisins, þar sem fjallað er um fjóra ófyrirsjáanlega atburði sem gætu haft áhrif á stöðuna í Úkraínu.

Íslendingar auka framlög sín til öryggis- og varnarmála

Fjárhagslegur stuðningur Íslands við Úkraínu í fyrra og á þessu ári er um 4,5 milljarðar króna. Ísland er að auka framlög sín almennt til öryggis- og varnarmála eins og önnur ríki Atlantshafsbandalagsins. Bandalagið hefur áhyggjur af auknu samstarfi Rússa og Kínverja og umsvifum Kína á Kyrrahafi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×