Erlent

For­seti Egypta­lands hugðist sjá Rússum fyrir 40 þúsund eld­flaugum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Egyptar eru afar háðir bæði Rússum og Bandaríkjamönnum.
Egyptar eru afar háðir bæði Rússum og Bandaríkjamönnum. epa/Alexander Zemlianichenko

Abdel Fatah El-Sisi, forseti Egyptalands, fyrirskipaði undirmönnum sínum að framleiða 40 þúsund eldflaugar fyrir Rússa en fara leynt með það til að forðast að styggja Vesturlönd.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í leynilegum gögnum Bandaríkjanna sem lekið var á netið.

Umrætt skjal er dagsett 17. febrúar síðastliðinn og virðist vera samantekt á samtölum milli Sisi og háttsettra embættismanna innan hersins. Samkvæmt gögnunum virðist einnig hafa staðið til að sjá Rússum fyrir skotfærum og byssupúðri.

Washington Post leitaði viðbragða frá sendiherra Egyptalands í Washington en hann sagði það hafa verið afstöðu Egypta frá upphafi að taka ekki þátt í átökunum í Úkraínu né taka afstöðu með annað hvort Úkraínu eða Rússlandi.

Þá er haft eftir heimildarmanni innan bandaríska stjórnkerfisins að ekkert bendi til þess að orðið hafi að sendum flugskeyta frá Egyptalandi til Rússlands.

Stjórnvöld í Egyptalandi hafa unnið að því að styrkja samband sitt við Rússa og eiga mikið undir korninnflutningi þaðan, ekki síst eftir að samdráttur varð á kornútflutningi frá Úkraínu.

Egyptar eru hins vegar á sama tíma afar háðir Bandaríkjamönnum, sem hafa veitt meira en milljarði dala á ári í öryggisaðstoð til Egyptalands í marga áratugi.

Sérfræðingar segja um að ræða afar áhættusaman leik fyrir Egypta, ef rétt reynist, og óforsvaranlegan fyrir náin bandamann Bandaríkjanna. Chris Murphy, nefndarmaður í utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, segir uppljóstrunina kalla á róttæka endurskoðun á samskiptum ríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×