Íslenski boltinn

Gerir grín að vítadómnum: „Vona það sé í lagi með Vuk“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Adam Örn lék með Leikni síðari hluta síðasta sumars áður en hann gekk í raðir Fram.
Adam Örn lék með Leikni síðari hluta síðasta sumars áður en hann gekk í raðir Fram. Vísir/Hulda Margrét

Adam Örn Arnarson, leikmaður Fram, virðist ósáttur við vítadóm í leik liðs hans við FH í fyrstu umferð Bestu deildar karla í gærkvöld. Hann skýtur létt á Vuk Dimitrijevic sem hann á að hafa brotið á í leiknum.

Kjartan Henry Finnbogason kom FH í forystu í leiknum með marki af vítapunktinum á 39. mínútu en vítið var dæmt á Adam Örn, sem lék í hægri bakverði Fram, fyrir brot á Vuk. Brotið virtist klaufalegt en snertingin þó ekki mikil og gerir Adam grín að því á samfélagsmiðlinum Twitter.

„Vona að það sé allt í lagi með Vuk eftir þetta högg í vítaspyrnudóminum,“ segir Adam á miðlinum og bætir við tjákni.

Vuk átti fínasta leik á vinstri kantinum gegn Adam í leik gærkvöldsins og greip Sigurður Gísli Bond Snorrason bolta Adams á lofti og svaraði: „Vuk hægeldaði þig í 70 mínútur áður en hann var tæklaður út úr leiknum kúturinn minn“.

Adam Erni var skipt af velli á 66. mínútu leiksins í gær en eftir það skoraði Vuk jöfnunarmark FH-inga, á 70. mínútu. Guðmundur Magnússon og Hlynur Atli Magnússon höfðu þá snúið leiknum Fram í vil eftir mark Kjartans.

Leik liðanna lauk með 2-2 jafntefli.

Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×