Erlent

FDA heimilar lausasölu naloxone-lyfsins Narcan

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vonir eru bundnar við að breytingin dragi úr dauðsföllum af völdum ofneyslu ópíóða.
Vonir eru bundnar við að breytingin dragi úr dauðsföllum af völdum ofneyslu ópíóða. Getty/Justin Sullivan

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur heimilað lausasölu lyfjaúðans Narcan. 

Narcan er notað sem neyðarmeðferð við ofneyslu ópíóða og breytingin gerir það að verkum að einstaklingar munu innan tíðar getað nálgast úðann í apótekum og matvöruverslunum, án lyfjaávísunar.

Í New York stendur til að koma upp Narcan-sjálfsölum síðar á þessu ári.

Vonir standa til að aukið aðgengi að Narcan muni draga úr síhækkandi tíðni dauðsfalla af völdum ofneyslu ópíóða. Robert M. Califf, yfirmaður Matvæla- og lyfjastofnunarinnar, segir breytingunni ætlað að mæta alvarlegri ógn við almenna lýðheilsu.

Yfir 100 þúsund manns í Bandaríkjunum hafa látist af völdum ofneyslu ópíóða síðustu tvö ár. Þá hafa milljónir skammta af Narcan verið gefnir af viðbragðsaðilum, heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem vinna með einstaklingum með fíknisjúkdóm.

Það hefur hins vegar reynst einstaklingum erfitt að nálgast lyfið, eða samheitalyf, sem hafa hingað til aðeins verið afgreitt gegn ávísun frá lækni. Apótek um allt land hafa haft heimild til að afhenda lyfið öllum þeim sem biðja um það en mörg hafa kosið að gera það ekki.

Af þeim 17 milljón skömmtum af naloxone, virka efninu í Narcan og áþekkum lyfjum, sem var dreift árið 2021 var aðeins 2,6 milljón skömmtum dreift af apótekum.

Naloxone er fáanlegt og notað hér á landi og síðasta sumar var greint frá því að heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við Landspítalann ynni að því að gera lyfið aðgengilegt um allt land. 

Fyrr á árinu ákvað Lyfjastofnun að opna fyrir ávísun lækna til stofnana og fyrirtækja sem veittu einstaklingum með ópíóðafíkn og/eða aðstandendum þess þjónustu. 

Gert var ráð fyrir að lyfið yrði til hjá lögreglu, björgunarsveitum, heilsugæslum, félagsþjónustu sveitarfélaganna og ekki síst Frú Ragnheiði og Ylju.

Heilbrigðisráðuneytið greiðir allan kostnað af lyfinu.

Hér má finna ítarlega frétt New York Times um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×