Enski boltinn

Lineker út í kuldann vegna um­­­mæla á sam­­fé­lags­­miðlum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gary Lineker á góðri stundu.
Gary Lineker á góðri stundu. Getty Images

Gary Lineker, fyrrverandi framherji enska landsliðsins, Barcelona, Leicester City og Tottenham Hotspur, hefur undanfarið ár stýrt Match of the Day, vinsælasta knattspyrnuþætti Bretlandseyja. Hann mun ekki stýra þætti morgundagsins þar sem hann hefur verið sendur í tímabundið leyfi vegna ummæla á samfélagsmiðlum.

Lineker gagnrýndi nýverið stefnu breskra stjórnvalda í málefnum flóttafólks. Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hét því á dögunum að hann myndi stöðva straum ólöglegra innflytjenda til landsins með því að „snúa bátnum við“ en fjöldi fólks kemur til landsins með smábátum yfir Ermasundið.

Lineker var ekki sáttur með þessa ákvörðun og lét pirring sinn í ljós á samfélagsmiðlum. Það stríðir gegn reglum BBC, breska ríkisútvarpsins, þar sem Match of the Day er sýndur. Hann hefur því verið sendur í tímabundið leyfi en í gær, fimmtudag, stefndi Lineker enn á að stýra þættinum á laugardagskvöld.

Í yfirlýsingu BBC segir: „Það hefur verið ákveðið að Lineker stýri ekki Match of the Day þangað til við höfum komist að samkomulagi um notkun hans á samfélagsmiðlum. Við höfum aldrei sagt að Gary ætti ekki að hafa skoðanir á pólitískum málum en við höfum sagt að hann megi ekki taka afstöðu með eða gegn þeim.“

Ian Wright, fyrrverandi framherji Arsenal, enska landsliðsins og tíður gestur þáttarins, stendur með Lineker og mun ekki mæta í þátt morgundagsins.

Sömu sögu er að segja af markamaskínuni fyrrverandi Alan Shearer, fyrrverandi framherja Newcastle United og enska landsliðsins.

Match of the Day er markaþáttur þar sem farið er yfir leiki ensku úrvalsdeildarinnar. Hann er sýndur á laugardags- og sunnudagskvöldum. Fyrsti þátturinn fór í loftið árið 1964.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×