Enski boltinn

Klopp virkilega ánægður fyrir hönd Marcus Rashford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, og Marcus Rashford, framherji Manchester United.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, og Marcus Rashford, framherji Manchester United. Samsett/AP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool viðurkennir að það gleðji hann að sjá Marcus Rashford koma svo sterkan til baka eftir erfiða tíma hjá Manchester United.

„Þegar þú ert knattspyrnustjóri Liverpool þá er það nánast ómögulegt að vera ánægður með eitthvað jákvætt hjá Manchester United,“ sagði Jürgen Klopp á blaðamannafundi fyrir leik Liverpool og United í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

„Engu að síður þá er ég virkilega ánægður fyrir hönd Rashford því þetta var búið að vera mjög erfitt ár hjá honum þar sem hann var ekki að spila á því getustigi sem hann getur,“ sagði Klopp.

Hinn 25 ára gamli Marcus Rashford hefur skorað 25 mörk á þessu tímabili í öllum keppnum en skoraði bara fimm mörk á tímabilinu í fyrra.

„Hann er að spila ótrúlega vel, hraðinn, tæknin, og yfirvegunin fyrir framan markið. Hann skorar heimsklassamörk og hann skorað einföld mörk líka. Hann getur skorað skallamörk. Hann er alla mögulega hluti. Við verðum að verjast honum sem lið. Hann er hins vegar ekki eini heimsklassaleikmaðurinn þeirra“ sagði Klopp.

Klopp talaði síðan um Manchester United liðið sem úrslitavél en Manchester menn urðu deildameistarar um síðustu helgi, komust áfram í bikarnum í miðri viku og eru komnir upp í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×