Enski boltinn

Brá þegar Roy Keane sagði mark De Bruynes kynþokkafullt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin De Bruyne fagnar marki sínu gegn Bristol City.
Kevin De Bruyne fagnar marki sínu gegn Bristol City. getty/Shaun Botterill

Margir sperrtu eflaust eyrun þegar Roy Keane lýsti marki Kevins De Bruyne í sigri Manchester City á Bristol City sem kynþokkafullri. Þáttastjórnanda á iTV brá allavega í brún.

De Bruyne skoraði þriðja og síðasta mark City í 0-3 sigrinum á Ashton Gate leikvanginum í sextán liða úrslitum ensku bikarkeppninnar. Phil Foden skoraði fyrstu tvö mörkin.

https://www.visir.is/g/20232383883d/city-ekki-i-vandraedum-med-b-deildarlid-bristol-leicester-ovaent-ur-leik

Keane mærði De Bruyne í bak og fyrir eftir leikinn og írski harðjaxlinn greip til heldur óvenjulegra lýsingarorða.

„Ég elska að horfa á hann spila. Litlu smáatriðin sem hann framkvæmir rétt, ákvarðanir, nákvæmni sendinga, hann getur skorað; hann er heimsklassa leikmaður,“ sagði Keane.

„Sumt sem hann gerði í kvöld, þetta mark. Jack [Grealish] gerir mjög vel, sendingin er hárnákvæm og þetta er topp klassa mark. Við vorum að horfa á kynþokkafullan fótbolta.“

Laura Woods, sem stýrði umfjöllun iTV, um leikinn var brugðið enda er kynþokkafullt kannski ekki orðið sem hún bjóst við að myndi hrökkva af vörum Keanes.

„Kevin De Bruyne mun fara heim, kveikja á sjónvarpinu, horfa á það helsta úr leiknum og velta fyrir sér hvernig Roy Keane lýsti því. Ég held að hann hafi ekki búist við að hann myndi lýsa því sem kynþokkafullu en svona er staðan,“ sagði Woods.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×