Enski boltinn

Potter óttast um starfið: „Get ekki treyst á stuðning þeirra endalaust“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Graham Potter situr í heitu sæti.
Graham Potter situr í heitu sæti. getty/Robbie Jay Barratt

Graham Potter, knattspyrnustjóri Chelsea, virðist vera farinn að óttast um starf sitt, allavega ef marka má ummæli hans eftir tapið fyrir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Chelsea tapaði Lundúnaslagnum gegn Spurs með tveimur mörkum gegn engu og hefur aðeins unnið tvo af síðustu fimmtán leikjum sínum í öllum keppnum. Sóknarleikur Chelsea hefur verið sérstaklega slakur en ekkert lið í ensku úrvalsdeildinni hefur skorað færri mörk síðan í nóvember.

Potter er meðvitaður um að dagar hans hjá Chelsea gætu senn verið taldir. „Ef úrslitin eru ekki nógu góð, eins og þau eru núna, get ég ekki treyst á stuðninginn eigandanna endalaust. Það er ljóst,“ sagði Potter eftir leikinn í gær.

„Ég tek fulla ábyrgð á þessum úrslitum og þau eru ekki nógu góð fyrir Chelsea. Við viljum bæta þau. Ég þarf að halda áfram, vinna með liðinu að reyna að breyta hlutunum okkur í hag. Leikmennirnir eru sárir. Þetta er erfitt fyrir okkur.“

Chelsea er í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fjórtán stigum frá Meistaradeildarsæti. Þá tapaði Chelsea fyrri leiknum gegn Borussia Dortmund, 1-0, í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×