Enski boltinn

Tryggði sér starf út tímabilið eftir sigurinn á Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Selles fagnar sigri á Chelsea með Ibrahima Diallo, leikmanni Southampton.
Ruben Selles fagnar sigri á Chelsea með Ibrahima Diallo, leikmanni Southampton. Getty/Justin Setterfield

Spánverjinn Ruben Selles hefur gert samkomulag um að stýra liði Southampton út tímabilið í ensku úrvalsdeildinni.

Selles tók fyrst við tímabundið eftir að Nathan Jones var rekinn en var fljótur að vinna sér inn traust yfirmanna sinna.

Nathan Jones hélt starfinu í aðeins 95 daga en hann hafði tekið við þegar Ralph Hasenhuttl var rekinn í nóvember. Það hefur því mikið gengið á í stjóramálum félagsins á þessu erfiða tímabili.

Southampton liðið er í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum frá öruggu sæti.

Selles hafði verið aðstoðarmaður hjá Southampton síðan í fyrra og vann undir bæði Jones og Hasenhuttl.

Southampton var í viðræðum við Jesse Marsch, fyrrum stjóra Leeds, en ekkert varð úr því að hann tæki við.

Hinn 39 ára gamli Selles sóttist aftur á móti eftir því að vera fastráðinn og eftir að liðið vann Chelsea um helgina þá fær hann tækifæri til að stýra liðinu út tímabilið.

Selles hefur reynslu af þjálfun í Grikklandi, Aserbaísjan og Danmörku.

Southampton liðið var aðeins búið að vinna fjóra af 23 leikjum fyrir leikinn á móti Chelsea en liðið tapaði átta af síðustu níu leikjum undir stjórn Jones.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×