Erlent

Guterres fordæmir framferði Rússa

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Aðalframkvæmdastjórinn var ómyrkur í máli þegar hann fordæmdi innrás Rússa. 
Aðalframkvæmdastjórinn var ómyrkur í máli þegar hann fordæmdi innrás Rússa.  AP Photo/Mary Altaffer

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, hélt ræðu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í nótt þar sem hann kallaði innrás Rússa í Úkraínu móðgun við sameiginlega samvisku heimsbyggðarinnar.

Á fundinum var verið að ræða tillögu sem studd er af Úkraínu og stuðningsþjóðum hennar um að Rússar hörfi skilyrðislaust frá landinu nú þegar.

Úkraínumenn vonast til að lönd heimsins sýni samstöðu með því að styðja við tillöguna en fulltrúi Rússlands á allsherjarþinginu sakaði Vesturlönd á móti um að vera að undirbúa nýja heimstyrjöld.

Á morgun er ár liðið frá innrás Rússa inn í Úkraínu þegar 200 þúsund hermenn ruddust yfir landamærin í stærstu hernaðaraðgerð í Evrópu frá lokum Seinni heimstyrjaldarinnar.

Að minnsta kosti 7200 almennir borgarar hafa átið lífið að mati Sameinuðu þjóðanna auk þess sem þúsundir til viðbótar hafa særst. Þá áætlar Bandaríkjaher að mannfall meðal hermanna sé um hundrað þúsund manns úr hvoru liði. Sextíu ríki og þar á meðal Ísland, hafa sett nafn sitt við tillöguna sem atkvæði verða greidd um síðar í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×