Liverpool hefur fengið samtals sex stig vegna VAR-ákvarðana samkvæmt frétt ESPN. Ef ekki væri fyrir inngrip VAR væri Rauði herinn með einungis 23 stig og í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en ekki því níunda.
Aston Villa hefur hagnast næstmest á VAR-dómum en liðið hefur fengið fjögur stig vegna þeirra. Þar á eftir koma Brentford, Crystal Palace og Manchester United sem öll hafa fengið þrjú stig.
Án þessara þriggja auka stiga væri United ekki í Meistaradeildarsæti. Arsenal væri áfram á toppnum en bara með þriggja stiga forskot en ekki fimm.
Leeds United hefur aftur á móti hagnast minnst á VAR-dómum en ef þessi tækni væri ekki til staðar væri liðið með fimm stigum meira og í 12. sæti en ekki því fimmtánda. West Ham United væri sömuleiðis þremur sætum ofar ef ekki væri fyrir VAR.
Tottenham væri í 3. sæti en ekki því fimmta ef VAR væri ekki til staðar og Chelsea væri einnig tveimur sætum ofar.