Eftir að ljóst var að Christian Eriksen yrði frá í um þrjá mánuði brást United hratt við og fékk Sabitzer á láni frá Bayern München á lokadegi félagaskiptagluggans í gær.
Sabitzer hefur verið notaður sparlega í vetur og aðeins spilað eina mínútu með Bayern eftir heimsmeistaramótið í Katar. Merson segir að United hafi gerst sekt um óðagotskaup og Sabitzer sé liðinu ekki samboðinn. Ferdinand er ekki á sama máli og er raunar hæstánægður með félagaskiptin.
„Ef ég væri að reyna að fá leikmann til skamms tíma fyrir Eriksen hefði ég fengið Sabitzer. Ég sá helling af leikjum með honum þegar hann var hjá RB Leipzig og hann var stórkostlegur,“ sagði Ferdinand.
„Ummæli Mersons lykta af því að hann hafi ekki séð hann spila. Hann veit hvernig á að spila fótbolta. Bayern kaupir ekki aulabárða. Hann er virkilega góður fótboltamaður. United hefði ekki getað gert betur.“
Sabitzer kom til Bayern frá Leipzig 2021. Hann hefur spilað 54 leiki fyrir Bæjara og skorað tvö mörk.