Erlent

Mann­skæð­ast­i dag­ur Vest­ur­bakk­ans um ár­a­bil

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmælendur á Vesturbakkanum í dag.
Mótmælendur á Vesturbakkanum í dag. AP/Majdi Mohammed)

Níu Palestínumenn voru skotnir til bana og um tuttugu eru særðir eftir árás ísraelskra hermanna á Jenin flóttamannabúðirnar á Vesturbakkanum. Skotbardagi stóð yfir í nokkrar klukkustundir en dagurinn er líklega sá blóðugasti á Vesturbakkanum um árabil.

Yfirvöld í Palestínu segja eldri konu meðal þeirra sem dóu og hafa samkvæmt Guardian staðfest að minnst þrír sem dóu hafi tilheyrt vopnahópum. Forsvarsmenn Hamas samtakanna hafa heitið því að Ísraelar muni gjalda fyrir árásina.

Í frétt Guardian segir að hermenn hafi mætt á svæðið við sólarupprás og komið sér fyrir við innganga búðanna. Þá hefur miðillinn eftir Sakir Khader, sem er kvikmyndagerðarmaður af palestínskum og hollenskum ættum, að vopnaðir menn hafi skotið á brynvarinn bíl hermannanna og það hafi leitt til fjögurra klukkustunda skotbardaga.

Mennirnir eru sagðir hafa tilheyrt Palestinian Islamic Jihad, PIJ, sem eru umsvifamikil samtök í Jenin. Her Ísraels segir að atlaga hafi verið gerð að búðunum vegna upplýsinga um að meðlimir PIJ væru að undirbúa árásir gegn Ísrael. Talsmaður hersins sagði blaðamönnum í dag að hópurinn hafi verið tifandi tímasprengja.

Herinn beitti sprengjum til að þvinga mennina úr íbúð sem þeir héldu til í, samkvæmt frétt Times of Israel, og segir að segir talsmaðurinn að aðrir hafi skotið á ísraelsku hermennina og að skothríðinni hafi verið svarað. Engan hermann sakaði.

Gera reglulega mannskæðar árásir

Ísraelsher hefur gert reglulegar atlögur sem þessar í norðurhluta Vesturbakkans á undanförnum mánuði. Eftirlitsaðilar segja undanfarna mánuði hafa verið þá mannskæðustu á Vesturbakkanum um árabil. Um 250 Palestínumenn og þrjátíu Ísraelar dóu í fyrra. Þá eru 29 Palestínumenn, bæði menn sem tilheyra vopnahópum og borgarar, sagðir hafa fallið á þessu ári.

Ný og mjög svo hægri sinnuð ríkisstjórn Ísraels þykir ekki líkleg til að draga úr spennu á svæðinu. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar segir til um að byggja fleiri landtökubyggðir á Vesturbakkanum og að einnig eigi að draga úr takmörkunum á hermenn og lögregluþjóna varðandi vopnabeitingu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×