Erlent

Þekkti fórnarlömb sín ekki og tilefnið enn óljóst

Samúel Karl Ólason skrifar
Ellefu voru skotin til bana í Monterey Park og níu særðust.
Ellefu voru skotin til bana í Monterey Park og níu særðust. AP/Sarah Reingewirtz

Hinn 72 ára gamli Huu Can Tran þekkti ekkert af þeim ellefu fórnarlömbum sínum sem hann skaut til bana í Monterey Park í Kaliforníu aðfaranótt síðasta sunnudag. Tran myrti ellefu manns og særði níu þegar hann skaut á hóp eldri borgara í danssal í bænum, þar sem verið var að halda upp á nýtt tunglár.

Tilefni skotárásarinnar liggur enn ekki fyrir en Tran hafði komið mótorhjóli fyrir nærri danssalnum þar sem hann skaut á fólk af handahófi. Robert Luna, fógeti Los Angeles-sýslu, sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi að talið væri að Tran hefði ætlað að nota mótorhjólið til að komast undan, ef hann hefði ekki komist að bíl sínum.

Við árásina notaðist hann við hálfsjálfvirkt vopn með þrjátíu skota magasíni, en í Bandaríkjunum er þetta vopn skilgreint sem skammbyssa. Ólöglegt er að eiga bæði vopn sem þetta og magasín í Kaliforníu. Tran skaut minnst 42 skotum.

Luna sagði að engin tengsl hefðu fundist milli Tran og fórnarlamba hans, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Tran var afvopnaður af 26 ára manni sem varð á vegi hans um tuttugu mínútum eftir árásina. Þá var hann á leið inn í annan danssal í um 5,6 kílómetra fjarlægð frá salnum þar sem hann skaut fólkið. Hann flúði svo á brott en svipti sig lífi með annarri skammbyssu daginn eftir þegar lögreglan stöðvaði hann í umferðinni.

Fógetinn sagði einnig á áðurnefndum blaðamannafundi að ekki væri ljóst hve lengi Tran hefði skipulagt árásina. Hann sagði erfitt að skilja af hverju Tran hefði framið ódæðið.

Lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að segja íbúum ekki að morðingi hefði gengið laus á svæðinu en lögreglan varðist allra fregna í margar klukkustundir. Þá sagði lögreglan ekki neitt við almenning eftir að ljóst var að Tran hefði reynt að komast inn í annan danssal.

Scott Wiese, lögreglustjóri Monterey Park, sagði að hann hefði ekki verið með nægilega miklar upplýsingar á sínum tíma. Hann sagði að allir lögregluþjónar á svæðinu hefðu verið settir í viðbragðsstöðu en að það hefði líklega lítið hjálpað að vara almenning við.

„Ég var ekki að fara að senda lögregluþjóna mína milli húsa til að vekja fólk og segja þeim að við höfum verið að leita að asískum manni í Monterey Park,“ sagði Wiese í viðtali við AP. „Það hefði ekki gert neitt gagn.“

Langflestir íbúar Monterey Park eru af asískum uppruna og þá var mikið af ferðamönnum í bænum vegna áðurnefndra hátíðarhalda.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×