Á laugardaginn í síðustu viku skaut hinn 72 ára gamli Huu Can Tran tíu manns til bana í danssal í borginni Monterey Park í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum. Eftir að hafa skotið á fólkið flúði hann í annan danssal en var þar afvopnaður af Tsay.
Í tveimur myndböndum sem TMZ birtir á vefsíðu sinni má sjá þegar Tran labbar inn í herbergi í seinni salnum þar sem Tsay vann. Hann stendur í dyragætt herbergisins um skamma stund og virðist vera að reyna að hlaða byssu sína. Þá hleypur Tsay í átt að honum og fara þeir báðir fram á gang.
Hitt myndbandið er úr öryggismyndavél sem er frammi á gangi. Þar sjást mennirnir kljást í nokkrar sekúndur áður en Tsay nær að rífa byssuna af Tran. Hann reynir og reynir að ná byssunni til baka en nær því ekki. Að lokum fer Tran út af staðnum og Tsay hringir í lögregluna.
Í samtali við New York Times segir Tsay að hann hafi verið afar hræddur þegar Tran gekk inn í herbergið. Hann taldi sig vera að fara að deyja en hann hafði aldrei séð byssu áður. Síðan þegar Tran byrjaði að hlaða byssuna kom eitthvað yfir Tsay. Hann ákvað að reyna að taka vopnið af honum.
„Hann leit út fyrir að vera að leita að fólki, fólki til að skaða. Þegar ég fékk kjarkinn, þá stökk ég snögglega á hann,“ segir Tsay.
Tran svipti sig lífi daginn eftir í hvítum sendiferðabíl um það bil fimmtíu kílómetrum frá árásarstaðnum. Umsátursástand hafði myndast en síðan heyrði lögreglan skothljóð úr bílnum. Þegar lögreglumenn opnuðu hurðar bílsins var Tran látinn.