Enski boltinn

Tottenham að ræna Danjuma af Everton

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnaut Danjuma var svo gott sem genginn í raðir Everton en virðist nú hafa snúist hugur.
Arnaut Danjuma var svo gott sem genginn í raðir Everton en virðist nú hafa snúist hugur. Silvestre Szpylma/Quality Sport Images/Getty Images

Þrátt fyrir að hafa gengist undir læknisskoðun hjá Everton síðastliðin laugardag virðist hollenski kantmaðurinn Arnaut Danjuma ætla að enda í herbúðum Tottenham.

Danjuma var búinn að taka ákvörðun um að ganga í raðir Everton á láni frá Villarreal. Í gær bárust fréttir af því að samningurinn yrði undirritaður í dag, þrátt fyrir að Frank Lampard hafi verið rekinn úr starfi sínu sem knattspyrnustjóri liðsins.

Þá höfðu einnig borist boð frá öðrum félögum í Danjuma. Hann hafði hins vegar sjálfur tekið þá ákvörðun að ganga í raðir Everton. Danjuma sagðist vita vel hversu slæm staða Everton er í ensku úrvalsdeildinni, en var tilbúinn að taka þeirri áskorun.

Hollendingnum virðist þó hafa snúist hugur og hann er nú sagður á leið til Lundúna frá Liverpool þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun hjá Tottenham í kvöld.

Eftir tvö ár í herbúðum Bournemouth gekk Danjuma í raðir Villarreal þar sem hann hefur verið síðan árið 2021. Hann hefur leikið 33 deildarleiki fyrir félagið og skorað í þeim 12 mörk. Þá á þessi 25 ára gamli vængmaður að baki sex leiki fyrir hollenska landsliðið þar sem hann hefur skorað tvö mörk.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.