Erlent

Japanir saka Kín­verja um hefndar­að­gerðir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sendiráð Kína í Tókýó.
Sendiráð Kína í Tókýó. AP/Kyodo News/Kazushi Kurihara

Stjórnvöld í Japan hafa mótmælt þeirri ákvörðun Kínverja að hætta að gefa út vegabréfsáritanir til Japana og segja um að ræða hefndaraðgerðir vegna ákvörðunar japanskra stjórnvalda að krefjast neikvæðrar niðurstöðu úr Covid-19 skimun frá kínverskum ferðalöngum.

Kínverjar tóku ákvörðunina í gær og hættu á sama tíma að gefa út skammtíma vegabréfsáritanir til ríkisborgara Suður-Kóreu.

Japan og Suður-Kórea eru meðal þeirra ríkja sem brugðu á það ráð að krefja kínverska ferðamenn um neikvæða niðurstöðu úr Covid-19 prófi áður en þeim yrði hleypt inn í landið, í kjölfar þess að stjórnvöld í Kína drógu mjög úr sóttvarnaaðgerðum.

Litlar upplýsingar liggja fyrir um stöðu kórónuveirufaraldursins í Kína en hún er talin vera mun verri en Kínverjar hafa viljað gefa upp.

Þess ber að geta að Kínverjar sjálfir gera enn kröfu um að erlendir ferðamenn framvísi neikvæðri niðurstöðu áður en þeir fá að koma inn í Kína.

Yoshimasa Hayashi, utanríkisráðherra Japan, segist harma að Kínverjar hafi ákveðið að grípa til takmarkana á útgáfu vegabréfsáritana af öðrum ástæðum en vegna Covid. Um takmarkanir Japana gegn Kínverjum sagði hann þær eins vægar og mögulegt væri.

Fylgst væri með stöður faraldursins í Kína og ákvarðanir teknar útfrá þróun mála þar.

Wen-ti Sung, stjórnmálafræðingur við Australian Centre on China in the World, segir aðgerðir Kínverja gegn Suður-Kóreu snúast um að gjalda líku líkt en gagnvart Japan snúist þær einnig um að mótmæla auknu samstarfi Japana við Bandaríkjamenn í málefnum Taívan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×