Veður

Gular við­varanir og ó­vissu­stig víða

Árni Sæberg skrifar
Von er á vonskuveðri á Vestfjörðum í dag og fram á morgun.
Von er á vonskuveðri á Vestfjörðum í dag og fram á morgun. Stöð 2/Egill

Gular veðurviðvaranir eru í gildi á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Klukkan 10 tekur gul viðvörun einnig gildi á Breiðafirði. Vegagerðin hefur lýst yfir óvissustigi á fjölda vega á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi.

Gul viðvörun tók gildi fyrir Norðurland eystra klukkan 05 í morgun og verður í gildi til klukkan 22. Þar er allhvöss norðanátt og talsverð ofankoma. Líklegt er að færð spillist, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands.

Klukkan 07 tók gul viðvörun gildi á Vestfjörðum þar sem gert er ráð norðaustan og norðan 15 til 25 metrum á sekúndu með snjókomu og skafrenningi, einkum norðantil. Ekkert ferðaveður verður til klukkan 11 í fyrramálið þegar gildistíma viðvaraninnar lýkur.

Á Ströndum og Norðurlandi vestra tók gul viðvörun gildi klukkan 08 og gildir til klukkan 11 í fyrramálið. Norðaustan og norðan 15 til 23 metrum er spáð með snjókomu og skafrenningi. Líklegt er að færð spillist og erfitt ferðaveður verður.

Vegum jafnvel lokað

Í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar segir að í dag megi búast við að vegir á Vestfjörðum og um norðan og vestanvert landið verði á óvissustigi, og þeim jafnvel lokað vegna veðurs og ófærðar.

Á Vesturlandi verða eftirfarandi vegir á óvissustigi vegna veðurs og gætu lokað um morguninn, Holtavörðuheiði, Brattabrekka, Svínadalur, Fróðhárheiði og Vatnaleið. Þæfingsfærð er á Vatnaleið og um Eyrarsveit. Ófært er um Staðarsveit og Útnesveg.

Á Vestfjörðum verða eftirfarandi vegir á óvissustigi vegna veðurs og gætu lokað um morguninn, Steingrímsfjarðarheiði, Djúp, Þröskuldar, Klettsháls, Hálfdán, Miklidalur og Kleifaheiði. Ófært er á Dynjandisheiði og norður í Árneshrepp. Flughált er í Steingrímsfirði.

Á Norðurlandi verða eftirfarandi vegir á óvissustigi vegna veðurs og gætu lokað um morguninn, Siglufjarðarvegur og Þverárfjall. Hálka og hálkublettir víða en snjóþekja eða krapi á nokkrum leiðum. Flughált er á Þverárfjalli og milli Sauðárkróks og Hofsóss.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×