Enski boltinn

Chelsea hefur eytt næstum því 62 milljörðum í varnarmenn og markverði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benoit Badiashile þegar hann var kynntur sem leikmaður Chelsea í gær.
Benoit Badiashile þegar hann var kynntur sem leikmaður Chelsea í gær. Getty/Darren Walsh

Varnarleikur Chelsea ætti að vera sá besti í ensku úrvalsdeildinni ef marka þær fjárhæðir sem forráðamenn félagsins hafa eytt undanfarin ár í leikmenn sem spila þeim megin á vellinum.

Nú síðast keypti Chelsea franska miðvörðinn Benoit Badiashile frá Mónakó.

Benoit Badiashile er aðeins 21 árs gamall en hefur engu að síður spilað í frönsku deildinni í fjögur og hálft tímabil og samtals 106 leiki.

Hann gerði sjö ára og hálfs árs samning við Lundúnaliðið eða til ársins 2030.

Chelsea borgar um 35 milljónir punda fyrir þennan stórefnilega varnarmann sem er farinn að banka á landsliðsdyrnar hjá Frökkum. Það gera um sex milljarðar íslenskra króna.

Þessi kaup þýða að Chelsea hefur nú eytt samtals 355,6 milljónum punda í markmenn eða varnarmenn frá sumrinu 2018. Við erum að tala um næstum því 62 milljarða íslenskra króna.

Þetta er svo há tala þótt að þeir hafi líka fengið Thiago Silva á frjálsri sölu frá Paris Saint Germain.

Stærstu kaupin á þessum tíma er á markverðinum Kepa Arrizabalaga frá Athletic Bilbao (72 milljónir punda), bakverðinum Ben Chilwell frá Leicester City (50 milljónir punda), miðverðinum Kalidou Koulibaly frá Napoli (33 milljónir punda), bakverðinum Marc Cucurella frá Brighton & Hove Albion (62 milljónir punda) og varnarmanninum Wesley Fofana frá Leicester City (70 milljónir punda).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×