Enski boltinn

Faðir Jude Bellingham sagður vilja sjá strákinn sinn í Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jude Bellingham sést hér fagna í leik með enska landsliðinu á HM í Katar í desember.
Jude Bellingham sést hér fagna í leik með enska landsliðinu á HM í Katar í desember. Getty/Richard Heathcote

Nýjasta slúðrið í kringum enska landsliðsmanninn Jude Bellingham bendir til þess að Liverpool sé að missa af honum.

Hinn nítján ára gamli miðjumaður er draumamaður fyrir miðjuna hjá Liverpool sem þarf nauðsynlega á liðstyrk sem fyrst.

Bellingham hefur ekki aðeins spilað frábærlega með Dortmund heldur sýndi hann einnig þroska sinn og hæfileika á stærsta sviðinu með því að leika stórkostlega með enska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Katar.

Dortmund ætlar að selja Bellingham, helst í sumar, en svo gæti einnig farið að hann fari í janúar sé eitthvað félag tilbúið að borga vel fyrir kappann.

Erlendu blöðin velta því stanslaust fyrir sér hvar Bellingham muni enda en auk Liverpool eru stórlið Real Madrid og Manchester City einnig með í kapphlaupinu.

Nú síðast hafa verið upp vangaveltur að leikmaðurinn sjálfur sé spenntastur að fara til Real Madrid.

Heimildir hjá Football Insider vefnum herma hins vegar að faðir Jude Bellingham vilji ekki sjá hann taka skrefið til Spánar heldur fara til Jürgen Klopp hjá Liverpool.

Stuðningsmönnum Liverpool dreymir um að fá Bellingham en hækkandi verðmiði og þessi mikli áhugi hjá Real Madrid dregur vissulega úr líkum á því að hann endi á Anfield.

Nú er bara að sjá hvort strákurinn sé tilbúinn að hlusta á pabba sinn og hvort Liverpool sé tilbúið að setja mikinn pening í þennan framtíðarleiðtoga sem heldur ekki upp á tvítugsafmælið sitt fyrr en í lok júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×