Veður

Appel­sínu­gul við­vörun og Vega­gerðin í við­bragðs­stöðu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Búist er við skafrenningi víða í dag.
Búist er við skafrenningi víða í dag. vísir/vilhelm

Gefnar hafa verið út viðvaranir á Suður- og Vesturlandi vegna veðurs. Appelsínugul viðvörun var í gildi frá klukkan 7 til klukkan 10 í dag, á Suðurlandi. Gul viðvörun er í gildi á Suðausturlandi og Vesturlandi. Vegagerðin er í viðbragðsstöðu vegna hugsanlegra vegalokana á Suður- og Suðvesturlandi. 

Spáð er austan 13-20 m/s og talsverðri snjókomu, fyrst á Reykjanesi en síðan við Suðurströnd og undir Eyjafjöllum fyrir hádegi. Hvassast verður við ströndina og til fjalla. „Búast má við skafrenningi með takmörkuðu eða lélegu skyggni og ófærð. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám og upplýsingum um færð,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Á höfuðborgarsvæði er gul viðvörun í gildi. Spáð er 13-18 m/s með éljagangi. Búast má við takmörkuðu eða lélegu skyggni í skafrenningi, versnandi akstursskilyrðum og samgöngutruflunum, einkum í efribyggðum. Sama er uppi á teningnum á Vesturlandi og Vestfjörðum, fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. 

Á Suðausturlandi er spáð austan 8-15 stigum og talsverðri eða mikilli snjókomu, búist við skafrenningi með versnandi aksturssklilyrðum.

Viðvaranakort Veðurstofunnar. Appelsínugul viðvörun gildir til kl. 15 í dag. Gular viðvaranir eru í gildi á Vestur- og Suðausturlandi til sunnudags.veðurstofan

Vegagerðin er einnig í viðbragðsstöðu vegna mögulegra vegalokana á Suðurstrandarvegi, Hellisheiði, Þrengslum, Grindarvíkuvegi og Reykjanesbraut. Isavia hefur varað við því að röskun gæti orðið á flugi um Keflavíkurflugvöll, sem og að röskun gæti orðið á innanlandsflugi. Strætó hefur einnig varað við því að óveðrið kunni að raska ferðum. 

Klukkan 9 var hringvegi milli Markarfljóts og Víkur lokað. 

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×