Veður

Spá­mönnum ber ekki saman um ný­árs­nótt

Árni Sæberg skrifar
Óljóst er hvernig mun viðra til sprenginga á nýársnótt. Í öllu falli verður þó ekki logn með tilheyrandi mengun.
Óljóst er hvernig mun viðra til sprenginga á nýársnótt. Í öllu falli verður þó ekki logn með tilheyrandi mengun. Stöð 2/Egill

Enn er spáð vonskuveðri í nótt og fram á morgun en sumar veðurspár spá nú skárra veðri um nýársnótt en áður.

Von er á austan og suðaustan hvassviðri eða hríð sem hefst um eittleytið í nótt. Búast má við skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Veðurviðvaranir hafa verið gefnar út víða og óvissustigi almannavarna hefur verið lýst yfir. Gert er ráð fyrir því að veðrið verði orðið skaplegt um hádegi á morgun.

Þá hefur því verið spáð að veðrið taki sig upp aftur á Suðvesturlandi þegar snörp lægð gengur yfir upp úr miðnætti á nýársnótt.

Einar er vongóður

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir á Facebooksíðu sinni í kvöld að nú horfi hins vegar til betri vegar hvað varðar nýársnótt. Allar þrjár spár sem hann reiðir sig á bendi nú til þess að lægðarmiðjan gangi yfir Reykjanesið og höfuðborgarsvæðisins. Það sé mun heppilegra þó Vestur- og Norð-Vesturstrengur muni ná inn um og upp úr miðnætti. Hann muni standa stutt við.

„Vissulega getur ferill hennar hrokkið til baka. Litlu má hins vegar muna, fari lægðin örlítið sunnar en nú er spáð, að sunnanverður Faxaflói og Suðurnes sleppi nær alfarið við vindrastirnar umhverfis lægðarmiðjuna,“ segir Einar.

Þá segir Einar að lægðin verði en þeirra sem náið verður fylgst með.

Veðurstofan stendur við sitt

Hins vegar segir vakthafandi veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við Vísi að veðurspám beri ekki öllum saman um hvort lægðarmiðjan verði yfir Faxaflóa, með tilheyrandi vindhraða á höfuðborgarsvæðinu, eða yfir Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu.

Því hafi verið ákveðið að breyta spám fyrir nýársnótt ekki að svo stöddu. Farið verði aftur yfir stöðu mála þegar uppfærð spá berst upp úr klukkan 10 í fyrramálið.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×